Erlent

Munch-eftirlíkingum rænt í Noregi

Tveir grímuklæddir menn ruddust inn á Continental-hótelið í miðborg Óslóar í dag og rifu þrjú listaverk eftir Edvard Munch af veggjunum þar. Þeir stukku því næst út og brunuðu af vettvangi í bíl sem fannst yfirgefinn um tvo kílómetra í burtu. Allt bendir til þess að ránið hafi verið vel skipulagt og að það hafi gengið upp eins og ræningjarnir lögðu upp með - fyrir utan eitt smáatriði. Málverkin sem Continental-hótelið á eru rándýr. Eftir ránið í Munch-safninu fyrir nokkrum misserum var ákveðið að koma þeim fyrir í öryggisgeymslu og setja eftirmyndir á veggina í staðinn. Ræningjarnir rændu því ljósritum sem verða þeim að litlu gagni, nema þá helst sem veggskraut. Lögreglan gagnrýnir hins vegar stjórnendur hótelsins og segir að þeim hefði verið nær að greina frá því að eftirmyndir væru á veggjunum. Þá hefði líkast til ekki verið framið neitt rán.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×