Erlent

Slagnum slegið á frest

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, vann áfangasigur í baráttunni um leiðtogaembætti Likud-bandalagsins í fyrrakvöld þegar tillaga um að flýta forkosningunum um embættið var felld. Benjamin Netanyahu, keppinautur Sharons, kallaði hann einræðisherra að kosningunum loknum. Hitnað hefur undir Ariel Sharon undanfarin misseri, ekki síst eftir að hann lét rýma landnemabyggðir á Gaza-svæðinu. Í fyrrakvöld fór fram atkvæðagreiðsla í miðstjórn flokksins um tillögu hvort flýta bæri forkosningum vegna leiðtogakjörs en Benjamin Netanyahu, fyrrverandi forsætisráðherra skoraði Sharon á hólm fyrir nokkrum vikum. 91 prósent miðstjórnarfulltrúa greiddi atkvæði og var tillagan felld naumlega með 1.433 atkvæðum gegn 1.329. Hefði kosningunum verið flýtt er talið öruggt að Netanyahu hefði gersigrað Sharon í þeim. Í staðinn fara kosningarnar ekki fram fyrr en í apríl. Netanyahu var æfur að loknum kosningunum og kallaði Sharon "einræðisherra". Hann gaf í skyn að Sharon hefði þrýst mjög á miðstjórnarfulltrúa og lofað þeim vænum embættum að launum fyrir stuðninginn. Sharon hefur síðustu daga hitt stuðningsmenn sína úr ríkisstjórninni en hunsað þá sem snerust gegn honum og er búist við að uppstokkun sé í aðsigi. Dagblaðið Haaretz telur að þótt úrslitin hafi verið Sharon að skapi setji þau hann í vanda því staða hans í flokknum verður næstu mánuðina áfram óljós. Því fyrr sem formannskjörið fer fram þeim mun fyrr getur hann ákveðið hvort hann haldi áfram að starfa innan Likud-bandalagsins eða stofni klofningshreyfingu eins og margir hafa spáð. Netanyahu hnykkti einmitt á því að Sharon hefði enn ekki sagt af eða á um hvort hann héldi áfram í flokknum. Miðstjórnarmenn reyndu árangurslaust að komast í símasamband við Sharon að atkvæðagreiðslu lokinni en bilun kom upp í símbúnaðinum, rétt eins og í hljóðnema hans á sunnudaginn. Margir telja að Sharon hafi uppskorið samúð fyrir vikið og rannsakar nú lögregla tildrög þess að hljóðneminn bilaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×