Innlent

Leyfislausir leigubílstjórar

"Það eru nokkur mál í skoðun hjá okkur í dag og slík mál koma nokkuð reglulega upp," segir Sigurður Hauksson hjá eftirlitsdeild Vegagerðarinnar. Er Sigurður þar að tala um mál er varða misnotkun á atvinnuleyfum leigubílstjóra en eitthvað virðist um að óprúttnir fari ekki að lögum og reglum hvað þau varðar. Viðurlög við misnotkun á slíkum leyfum er aðvörun en ekki er gengið ýkja hart fram fyrr en sannað þykir að viðkomandi leyfishafi brjóti lögin ítrekað. Hefur það heft rannsókn slíkra mála að andmælaréttur leyfishafa er afar ríkur og hvert mál getur tekið langan tíma. Misnotkunin felst aðallega í að leyfishafar, sem halda leyfum sínum til 71 árs aldurs, framleigi þau og stundi jafnvel allt aðra vinnu á meðan en að keyra leigubíl. Slíkt er ekki brot svo lengi sem leyfishafar sjálfir skili 40 tíma vinnuframlagi í viku hverri en eftirlit með slíku er afar erfitt og allt að því vonlaust. Sigurður segir að misjafnir menn finnist í öllum greinum en tekur fram að 95 prósent leigubílstjóra séu löghlýðnir og almennt séu engin vandamál af þeirra hálfu. "Svo eru aðrir sem reyna að fara á sveig við lög og reglur en enginn hefur þó misst leyfið sitt vegna brota á þeim þremur árum sem við höfum séð um eftirlit með þessu." Lög kveða einnig á um að allir leigubílstjórar skuli vera með atvinnuleyfi sín í bílum sínum en Fréttablaðið hefur sannreynt að því er ekki til að heilsa í öllum tilvikum. Víða erlendis mega bílstjórar ekki aka leigubílum nema akstursleyfi þeirra sé á áberandi stað í bílum þeirra þar sem viðskiptavinir geta séð mynd, nafn og leyfisnúmer viðkomandi. Er það sjálfssagt öryggisatriði fyrir farþega enda ljóst að tryggingar ná ekki til þeirra sem aka leigubíl undir fölsku flaggi. Vegagerðin hefur vitneskju um að í höfuðborginni séu notaðir leigubílar sem tilheyra engri leigubílastöð og er því allur varinn góður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×