Lífið

Útgáfutónleikar Ske

Hljómsveitin Ske er í afskaplega góðu skapi þessa dagana. Í kvöld býður hún landsmönnum ókeypis á tónleika í Grand Rokk þar sem leikin verða lög af plötunni Feelings Are Great, sem kom út núna fyrir jólin. "Þetta verða útgáfutónleikar," segir Guðmundur Steingrímsson. "Það er ágætt að halda útgáfutónleika í rólegheitunum að loknum jólaerlinum. Við spilum ekkert oft á tónleikum, en núna er bara sá gállinn á okkur." Hljómsveitin ætlar einnig að leika lög af fyrri breiðskífu sinni, Life, Death, Happiness & Stuff, svo þetta verða langir og góðir tónleikar. "Við ætlum að spila lögin aðeins öðru vísi en við höfum gert. Við verðum með meiri elektróník. Við byrjuðum þannig og erum að fikra okkur hægt inn í það aftur." Hljómsveitin hefur yfir forláta tölvu að ráða, sem jafnan gengur undir nafninu Jóakim Brak og fær að leika nokkuð stórt hlutverk á þessum tónleikum. "Hún framleiðir brak og bresti, og við viljum meina að hún sé austurrískur tilraunatónlistarmaður sem var uppi einhvern tímann á 19. öld." Fyrir utan almenna ánægju, sem er ríkjandi í hljómsveitinni nú um stundir, gefast ýmis tilefni til þess að fagna á þessum tónleikum. "Ég held að David Bowie, Karl Örvarsson og Elvis Presley eigi afmæli á miðnætti, svo það er aldrei að vita nema við brestum út í afmælissöng. Svo er líka gleðiefni að bæði Ragnar Bjarnason og Ási í Smekkleysu fengu fálkaorðuna."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.