Erlent

Öryggisverðir fara í verkfall

Lausafjárskortur gæti orðið í stærstu borgum Svíþjóðar um helgina þar sem verkalýðsfélag öryggisvarða, sem annast peningaflutninga, ætlar að hætta að flytja peninga þar til öryggi þeirra verður tryggt. Þeir ákváðu þetta eftir að vopnaðir menn rændu fjármunum úr peningaflutningabíl í grennd við Gautaborg í gærmorgun en tveir öryggisverðir slösuðust þegar ræningjarnir sprengdu hreinlega aðra hliðina úr bílnum. Öryggisverðir vilja að lögregla fylgi þeim framvegis. Svíar nota mikið hraðbanka, sem fljótlega munu tæmast, og svo munu peningar hlaðast upp í stórverslunum þar sem flutningamennirnir eru í verkfalli, en það býður þeirri hættu heim að fleiri rán verði framin. Ræningjarnir, sem undirbjuggu ránið mjög vel og dreifðu meðal annars naglamottum á allar aðkomuleiðir, hafa greinlega skipulagt undankomuna líka út í æsar því þeir eru ófundnir þrátt fyrir ákafa leit sænsku lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×