Erlent

Merkel segist vera bjartsýn

Angela Merkel verðandi kanslari.
Angela Merkel verðandi kanslari.

Leiðtogar tveggja stærstu stjórnmálaflokka Þýskalands héldu í gær áfram viðræðum um myndun samsteypustjórnar og reyndu að láta innanflokksmisklíð í báðum flokkum ekki trufla þær.

Angela Merkel, kanslaraefni kristilegra demókrata, og forystumenn jafnaðarmannaflokksins SPD hófu nýja lotu viðræðnanna sem nú hafa staðið í meira en hálfan mánuð. En flokkarnir eru enn að jafna sig á því að í vikunni skyldi formaður SPD tilkynna að hann hygðist láta af flokksformennskunni og Edmund Stoiber, einn helsti þungavigtarmaðurinn í liði kristilegra, ákvað að taka ekki sæti í stjórninni.

Merkel fullyrti í gær að viðræðurnar væru á góðum skriði, þrátt fyrir "taugatitring" síðustu daga, og það ætti að takast að leggja væntanlegan málefnasamning fyrir flokksþing beggja flokka um miðjan mánuðinn. Matthias Platzeck, forsætisráðherra Brandenborgar sem er eitt þýsku sambandslandanna sextán, hefur verið tilnefndur sem væntanlegur arftaki Franz Münteferings sem formaður SPD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×