Erlent

Örvæntingin eykst í New Orleans

Örvæntingin vex hjá fólkinu sem enn er eftir í New Orleans. Um 20 þúsund manns bíða enn eftir að komast burt og það lá við óeirðum í gærkvöldi, þegar fólk barðist um sæti í rútunum sem komu til að flytja það burt til Houston. Margir eru aðframkomnir af hungri og þorsta og tugþúsundir manna þurfa vatn og matvæli strax ef ekki á illa að fara. Mikill skortur er orðinn á lyfjum og á spítölum er ástandið víða orðið þannig að starfsfólkið þarf að velja á milli fólks þegar kemur að lyfjagjöf. Á meðan björgunarsveitarmenn og lögregla keppast við að bjarga fólki og berjast við glæpi hrannast upp rotnandi lík sem enginn sinnir. Þeir örfáu sem mega vera að því þurfa að kryfja fólk á bílastæðum því ekkert ljós er að hafa nema sólarljósið. Ránum og glæpum fækkar ekkert og búið er að sækja þjóðvarðliða alla leið frá Írak til að halda uppi lögum og reglu. Ríkisstjóri Louisiana segir hermenn hafa hafa fengið fyrirmæli um að hika ekki við að skjóta á glæpamenn og ef ástæða þyki til verði þeir skotnir til bana. Herþyrlur hafa hent 7500 sandpokum til að laga bresti í stíflugörðum. Í nótt komu um tuttugu þúsund manns til Houston, með nokkur hundruð rútum, en þar er ekki hægt að taka við fleirum. Bandaríkjaþing samþykkti í gærkvöldi aukafjárveitingu upp á sjö hundruð milljarða króna vegna hamfaranna á suðurströnd Bandaríkjanna. Þá hafa nærri sex milljarðar króna borist frá fyrirtækjum og einstaklingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×