Innlent

Fjöldi fíkla hefur þrefaldast

Fjöldi fíkla sem nota ólögleg vímuefni hefur þrefaldast undanfarin tíu ár að því er fram kemur í ársriti SÁÁ. Vandinn er meiri en nokkru sinni fyrr og eru vímuefnafíklar veikari en nokkru sinni fyrr. Vímuefnavandinn hefur aldrei verið meiri á Íslandi enn hann er nú. Ólöglegi vímuefnamarkaðurinn hefur þróast mikið síðustu tíu ár og þeir sem þar ráða ríkjum nýta sér alla tiltæka hátækni í lyfjafræði, fjarskiptum og flutningum. Í ársriti SÁÁ segir að Reykjavíkursvæðið líkist meira og meira stórborg með tilheyrandi vímuefnaneyslu. Vímuefnin verða sterkari, úrvalið meira og neysluvenjurnar fjölbreytilegri og hættulegri. Hópur sprautufíkla stækkar og vinsældir lyfja sem notuð eru til lækninga hafa farið vaxandi. Vinsælustu lyfin á ólöglega vímuefnamarkaðnum nú eru rítalín og cantalgintöflur. Neysla örvandi fíkniefna hefur vaxið mest meðal þeirra sem eru á aldrinum tuttugu til þrjátíu ára en kannabisneysla vex í öllum aldurshópum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×