Erlent

Koizumi boðar til kosninga

Stjórnarkreppa ríkir í Japan eftir að þingmenn Frjálslynda demókrataflokks Junichiro Koizumi forsætisráðherra sviku lit og greiddu atkvæði gegn stjórnarfrumvarpi í efri deild þingsins sem kvað á um einkavæðingu póstþjónustunnar. Neðri deildin samþykkti frumvarpið á dögunum en í efri deildinni í gær snerist dæmið við þar sem þingmenn felldu frumvarpið með 125 atkvæðum gegn 108. Í kjölfarið hélt Koizumi neyðarfund í ríkisstjórninni þar sem ákveðið var að leysa upp neðri deild þingsins og boða til kosninga í haust. "Efri deildin hefur lýst því yfir að einkavæðing póstþjónustunnar sé ekki nauðsynleg. Því vil ég gefa japönsku þjóðinni kost á að svara því hvort hún sé þessu sammála," sagði Koizumi á fréttamannafundi í gær. Forsætisráðherrann sagði að kosningarnar yrðu haldnar 11. september næstkomandi og kvaðst ætla að segja af sér mistakist flokki hans, frjálslyndum demókrötum, og samstarfsflokki hans í ríkisstjórninni að halda meirihluta. Frjálslyndir demókratar hafa verið við völd í Japan nánast óslitið síðustu fimmtíu árin og því yrði fall hans úr stjórn stórtíðindi. Skoðanakannanir benda til þess að heldur sé farið að falla undan fæti hjá flokknum á meðan Demókrataflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, hefur verið að sækja í sig veðrið. Yoshinobu Shimamura landbúnaðarráðherra sagði af sér embætti í kjölfar ákvörðunar Koizumi í gær. Sú staðreynd, auk sjálfrar atkvæðagreiðslunnar, sýnir að miklar sviptingar eru í flokknum og að óvinsældir Koizumi fari vaxandi. Einkavæðing póstþjónustunnar hefði þýtt tilurð stærsta banka heims en innlán hans hefðu numið 180.000 milljörðum króna. Stuðningsmenn frumvarpsins telja að einkavæðingin hefði haft verulega jákvæð áhrif á þjóðarbúskapinn. Þeir sem lögðust gegn sölunni kváðust hins vegar óttast að hún myndi leiða til mun verri póstþjónustu í strjálbýlli héruðum landsins og uppsagna tugþúsunda póststarfsmanna. Svo greiddu einfaldlega sumir atkvæði gegn sölunni til að mótmæla stjórnarháttum forsætisráðherrans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×