Lífið

Nýr þáttur í bígerð

Sigríður Arnardóttir. Ferðin til Kenía var Sirrý minnistæð en þátturinn hennar Fólk tók þátt í vel heppnaðri söfnun á vegum UNICEF.
Sigríður Arnardóttir. Ferðin til Kenía var Sirrý minnistæð en þátturinn hennar Fólk tók þátt í vel heppnaðri söfnun á vegum UNICEF.

Fólk með Sirrý hefur undanfarin fimm ár verið einhver allra vinsælasti spjallþáttur í íslensku sjónvarpi. Núna finnst þáttastjórnandanum, Sigríði Arnardóttur, vera orðið tímabært að breyta til en síðasti Fólk-þátturinn fer í loftið 21. desember.

"Ég trúi á fimm ára tímabil og að maður eigi að hætta á toppnum," segir Sirrý sem hafði þá nýlega sloppið undan slagveðrinu í Reykjavík og sat hólpin í húsnæði Skjás eins. "Sjónvarpsstöðin er búin að biðja mig um að hanna nýja þætti og sjálf hef ég gengið með hugmynd að einhverju öðru í tvö ár," útskýrir hún en vill þó ekkert gefa upp hvað það sé. Á fjölmiðlamarkaði séu hugmyndir gull og hún liggi á þeim eins og ormur. "Samningaviðræður eru á viðkvæmu stigi."

Fólk með Sirrý hefur lengi verið eitt af flaggskipum Skjás eins og verið líkt við þátt Opruh Winfrey. Sirrý þykir vænt um þann samanburð og segir jafnframt að fjórar Eddu-tilnefningar sem þátturinn hafi hlotið séu sönnur á því að verið var að gera rétt. Þátturinn hefur þó aldrei hlotið þá ágætu styttu en Sirrý grætur það þurrum tárum. Hún segir að það sé margt sem standi upp úr á þessum fimm árum og hún eigi erfitt með að taka eitthvað eitt út. Hún getur þó ekki komist hjá því að nefna ferð sem þátturinn fór til Kenía í samstarfi við UNICEF.

"Það var frábært að fá síðan að taka þátt í vel heppnaðri söfnun á vegum samtakanna," bætir hún við. "Ég hef fengið allar stéttir í sófann til mín. Það hefur bæði verið fólk í gleði og sorg," útskýrir hún og bætir við að það hafi verið henni ómetanlegt að finna það traust sem áhorfendur og gestir hafi sýnt henni.

Sigríður hefur fengið hrós fyrir nálgun sína á erfiðum viðfangsefnum og henni hefur ekki verið neitt mannlegt óviðkomandi. Hún segir að þátturinn hafi verið frábær skóli. "Ég lifi mig mikið inn í hann og hef lært mjög mikið af þeim gestum sem hafa komið." Sirrý tekur þó fram að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvernig síðasta þættinum verði háttað því tveir valmöguleikar séu í stöðunni.

"Annað hvort verður þetta hreinræktaður jólaþáttur eða við horfum um öxl og lítum yfir farinn veg. Báðir valkostirnir eru mjög góðir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.