Innlent

Bótakröfur eru í athugun

Höfuðstöðvar SÍF í Hafnarfirði. Í mars var skipulagi SÍF breytt með þeim hætti að hluti starfseminnar var færður undir hatt Iceland Seafood International.
Höfuðstöðvar SÍF í Hafnarfirði. Í mars var skipulagi SÍF breytt með þeim hætti að hluti starfseminnar var færður undir hatt Iceland Seafood International.

Seafood Union skoðar mögulegan bótarétt eftir að Hæstiréttur hafnaði því að staðfesta lögbann sýslu­mannsins í Reykjavík á að fjórir af átta fyrrverandi starfsmönnum Ice­land Seafood International (áður SÍF) mættu starfa hjá Seafood Union.

SÍF fór í byrjun árs fram á lögbann á að fimm starfs­menn af þeim átta sem stofnuðu Seafood Union mættu starfa þar, en sýslumaður hafnaði einni beiðn­inni.

Lögbann sýslumanns varði í sex mánuði eða til júníloka í sumar. Hæstiréttur féllst á að einn af mönnunum fjórum hefði um tíma ekki mátt ráða sig hjá Seafood Union, en sýknaði þrjá. Kröfu Iceland Seafood um að viðurkennt væri að starfs­mönn­un­um væri óheimilt að nýta sér atvinnuleyndarmál eða trúnaðar­upplýsingar í eigu fyrirtækisins var vísað frá dómi, enda hefði ekki verið til­greint hvaða leyndarmál eða upp­lýs­ing­ar um væri að ræða og hvort menn­ir­nir hafi haft aðgang að slíkum upplýsingum.

Þá var vísað frá Hæstarétti kröfu um að staðfest yrði lögbann á að mennirnir réðu sig til starfa hjá Seafood Union vegna þess að sá tími sem lögbannið náði til var liðinn. Kristinn Bjarnason, lögmaður mannanna og Seafood Union segir ljóst að sá sem fer fram á lögbann sem ekki stenst beri skaðabótaskyldu.

Hann vildi ekki tjá sig um mögulegar upphæðir en benti á að bæði hafi mönnum verið meinað að vinna við sérhæfð störf í hálft ár auk þess sem til greina komi miskakrafa vegna álitshnekkis.


Tengdar fréttir

Ríkið borgi yfir 24 milljónir

Hjónum og tólf ára gömlum fjölfötluðum syni þeirra hafa verið dæmdar rúmlega 24,2 milljónir króna í bætur, auk vaxta, vegna mistaka starfsfólks Landspítalans á meðgöngu og við fæðingu drengsins. Málið var höfðað árið 2002 á hendur ríkinu, en því var einnig gert að greiða þrjár milljónir í málskostnað. Heildarkrafa fólksins hljóðaði hins vegar upp á rúmar 70 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×