Erlent

Kosningum flýtt í Kanada

Martin rýfur þing. Paul Martin forsætisráðherra gengur ásamt eiginkonu sinni af fundi fulltrúa drottningar, Michaelle Jean, í Ottawa í gær með formlegt bréf um þingrof og boðun kosninga 23. janúar.
Martin rýfur þing. Paul Martin forsætisráðherra gengur ásamt eiginkonu sinni af fundi fulltrúa drottningar, Michaelle Jean, í Ottawa í gær með formlegt bréf um þingrof og boðun kosninga 23. janúar.

Paul Martin, forsætisráðherra Kanada, rauf í gær þing og boðaði kosningar þann 23. janúar, eftir að Kanadaþing samþykkti á mánudagskvöld vantraust á minnihlutastjórn hans. Tilefni vantraustsyfirlýsingarinnar var spillingarhneyksli sem háttsettir menn í Frjálslynda flokknum, flokki forsætisráðherrans, eru flæktir í og snýst um misnotkun fjár úr opinberum sjóðum.

Leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna - Íhaldsflokksins, Nýja lýðræðisflokksins og Bloc Quebecois, flokks frönskumælandi Quebec-búa ¿ sem saman höfðu meirihluta á þingi, settu Martin í síðustu viku afarkosti sem hann féllst ekki á og því var efnt til vantraustsatkvæðagreiðslunnar.

Martin vildi ekki fallast á að rjúfa þing í janúar og boða kosningar í febrúar. Stjórnarandstöðuleiðtogarnir sögðu Frjálslynda flokkinn rúinn siðferðilegum trúverðugleika til að stjórna landinu.

Þessi niðurstaða þýðir að kosið verður til allra 308 sætanna á Kanadaþingi. Ríkisstjórn Martins mun sitja til bráðabirgða þangað til. Hún þýðir þar með að nú verður kosningabarátta háð yfir hátíðarnar, en að kosningar fari fram um hávetur í Kanada gerðist síðast fyrir 26 árum.

Samkvæmt skoðanakönnunum nýtur Frjálslyndi flokkurinn smávægilegs forskots á Íhaldsflokkinn. Nýi lýðræðisflokkurinn er í þriðja sæti. Sömu skoðanakannanir benda til að Bloc Quebecois muni sópa til sín atkvæðum í Quebec en það gerir ósennilegt að hægt verði að mynda stöðuga meirihlutastjórn eftir kosningar. Stephen Harper, leiðtogi Íhaldsflokksins, yrði forsætisráðherra ef flokkur hans fengi flest atkvæði.

Samskipti Kanadastjórnar við ráðamenn í Washington hafa verið stirð í stjórnartíð Martins, sem beitti sér gegn innrásinni í Írak og hafnaði þátttöku Kanadamanna í eldflaugavarnakerfi Bandaríkjamanna. Íhaldsmenn segjast myndu bæta samskiptin suður yfir landamærin en kanadískir kjósendur studdu annars almennt stefnu stjórnar Martins í Íraksmálum og öðrum utanríkismálum. Barátta Martins fyrir því að giftingar samkynhneigðra yrðu leyfðar um allt Kanada hefur hins vegar verið umdeildari, og hneykslismál í kringum misnotkun fjár úr sjóðum sem meðal annars áttu að styðja sérstaka "þjóðareiningaráætlun" í Kanada hefur grafið undan Frjálslynda flokknum. Minnihlutastjórn Martins tók við stjórnartaumunum fyrir aðeins 17 mánuðum, eftir að Frjálslyndi flokkurinn missti í kosningum þingmeirihlutann sem hann hafði áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×