Innlent

Sjávarsíki að danskri fyrirmynd

Sjávarsíkið. Á rauðleitu reitina, beggja vegna síkisins, koma nýbyggingar en líklega munu þær ekki þekja reitina að fullu. Hafist verður handa við gerð síkisins strax á næsta ári en kostnaður því tengdu verður um hálfur milljarður króna.
Sjávarsíkið. Á rauðleitu reitina, beggja vegna síkisins, koma nýbyggingar en líklega munu þær ekki þekja reitina að fullu. Hafist verður handa við gerð síkisins strax á næsta ári en kostnaður því tengdu verður um hálfur milljarður króna.

Á næsta ári hefjast framkvæmdir við uppbyggingu miðbæjarins á Akureyri. Stefnt er að því að innan fárra ára verði hann þungamiðja mannlífs og menningar í bænum. Umfangsmesta breytingin er fólgin í gerð sjávarsíkis að danskri fyrirmynd, eins konar Nýhöfn, sem liggja mun frá Torfu­nefi að Skipagötu.

Núverandi miðbær á Akureyri er byggður á landfyllingum en síkinu er ætlað að endurheimta þau nánu tengsl sem bærinn og Pollurinn höfðu fyrir tíma landfyllinga.

Við framkvæmdina skapast nýtt rými í miðbænum sem liggur vel við sól, nýtur skjóls í norðanátt og tengir og opnar sjónlínu milli miðbæjar og sjávar. Veitingastaðir og kaffihús verða beggja vegna síkisins, sem er ætlað að laða að bæði bæjarbúa og ferðamenn.

Samkvæmt tillögu sem hlaut fyrstu verðlaun í alþjóðlegu hugmyndasamkeppninni um uppbyggingu miðbæjarins átti síkið að ná að Hafnarstræti, göngugötunni, en ákveðið var að stytta það um einn þriðja. Með því sparast um 800 milljónir króna í fjármunum og mikill tími því ella hefði þurft að rífa húsnæði Símans og endurbyggja fjarskiptasamband bæjarins við umheiminn.

Kostnaður við gerð síkins og nauðsynlegar framkvæmdir tengdar því er áætlaður um hálfur milljarður króna. Á móti kemur að verðmæt byggingarsvæði verða til á bökkum síkisins og gera bæjar­yfirvöld ráð fyrir að opinber gjöld vegna bygginganna sem þar rísa muni dekka allan kostnað við gerð síkisins.

Vegna framkvæmdanna við síkið þarf að breyta lögnum veitukerfa í miðbænum og brúa Glerárgötu fyrir akandi umferð. Þar með verður til gönguleið á bökkum síkisins sem liggja mun undir Glerárgötu og að sjávarsíðunni þar sem menningarhús bæjarins mun rísa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×