Erlent

Bretar beittu hvítum fosfór í Írak

Breti Í Basra. Styr stendur um notkun fosfórsprengja en alþjóðasáttmálar banna ekki notkun þeirra gegn hermönnum, aðeins borgurum.
Breti Í Basra. Styr stendur um notkun fosfórsprengja en alþjóðasáttmálar banna ekki notkun þeirra gegn hermönnum, aðeins borgurum.

Bandaríkjamenn hafa viður­kennt að hafa notað sprengjur fylltar hvítum fosfór gegn uppreisnarmönnum í Falluja á síðasta ári. Bretar hafa einnig notað efnið en aðeins til reykframleiðslu.

Bandaríkjamenn hafa sætt mikilli gagnrýni vegna notkunar á fosfórfylltum sprengjum í Írak að undanförnu eftir að ítalska ríkissjónvarpið sýndi myndir frá Falluja.

Slík vopn valda fólki sársaukafullum bruna og notkun þeirra gegn borgurum er bönnuð samkvæmt alþjóðasáttmálum. Þvert á fyrri yfirlýsingar viður­kenndi bandaríska landvarnaráðuneytið í fyrradag að hafa notað fosfórsprengjur í umsátrinu um Falluja.

Barry Venable, talsmaður varnarmálaráðuneytisins, hafnaði því hins vegar í samtali við BBC að slík vopn væru efnavopn eins og gagnrýnendur hafa haldið fram. "Þær voru notaðar gegn vígamönnum óvinanna," sagði Venable í samtali við BBC.

Á meðan á umsátrinu um Falluja stóð haustið 2004 var þar ennþá fjöldi óbreyttra borgara enda komust þeir hvorki lönd né strönd. Vandséð er hvernig bandarískir hermenn gátu gert greinarmun á þeim og uppreisnarmönnum. Því sagði Paul ­­Rodg­ers,­ prófessor við friðarrannsóknastofnun Bradford-háskólan í Bretlandi, við fréttamann BBC að fosfórsprengjur væru efnavopn þegar þeim væri beint að borgurum, eins og líkur eru á að gert hafi verið í Falluja.

Í gær upplýsti svo talsmaður Tonys Blair, forsætisráðherra Bretlands, að hvítum fosfór hefði verið beitt í hernaðinum í Írak, en einungis til að hylja átakavettvang í reyk. Hann vildi hins vegar ekki tjá skoðun forsætisráðherrans á notkun bandaríska hersins á efninu heldur sagði það einkamál Bandaríkjamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×