Erlent

Sirleaf kjörin forseti Líberíu

Kjarnakona. "Konur eru reiðubúnar að skrifa söguna," sagði Ellen Johnson-Sirleaf við stuðningsmenn sína í gær. "Og karlarnir eru tilbúnir að vinna með okkur."
Kjarnakona. "Konur eru reiðubúnar að skrifa söguna," sagði Ellen Johnson-Sirleaf við stuðningsmenn sína í gær. "Og karlarnir eru tilbúnir að vinna með okkur."

Ellen Johnson-Sirleaf er fyrsta konan sem nær kjöri sem forseti Afríkuríkis en þegar þorri atkvæðanna í líberísku þingkosningunum hefur verið talinn hefur hún öruggt forskot á George Weah, keppinaut sinn. Hann segir brögð hafa verið í tafli.

Þegar 91 prósent atkvæðanna úr síðari umferð líberísku forsetakosninganna, sem fram fór fyrr í vikunni, hafði verið talið í gær höfðu 59 prósent kjósenda greitt Johnson-Sirleaf atkvæði sitt en 41 prósent Weah. "Ég held að úrslitin séu mjög skýr, ég er afar auðmjúk yfir að líberíska þjóðin skyldi hafa valið mig til að leiða landsmenn á braut sátta og uppbyggingar," sagði hún í útvarpsviðtali við BBC. Hún kvaðst vonast til að sigur sinn hvetti kynsystur sínar í Afríku til frekari dáða.

Enn á eftir að telja atkvæði úr afskekktari sveitahéruðum landsins og því gæti dregist um tvær vikur að tilkynna endanleg úrslit. Bráðabirgðaniðurstöður kosningaeftirlitsmanna á vegum Efnahagsbandalags Vestur-Afríku­ríkja benda til að kosningarnar hafi farið heiðarlega fram og litlir hnökrar verið á framkvæmd þeirra.

George Weah og stuðningsmenn hans vísa þeim dómi hins vegar algerlega á bug og segja að brögð hafi verið í tafli. Weah sýndi blaðamönnum kjörseðla sem hann sagði formerkta Johnson-Sirleaf. Þessum seðlum hafi starfsmenn kjörstjórna stungið í kjörkassana.

Johnson-Sirleaf fæddist árið 1938 en á sínum yngri árum naut hún þeirra forréttinda að hljóta menntun í bestu háskólum Bandaríkjanna. Á áttunda áratugnum gegndi hún embætti fjármálaráðherra Líberíu en í kjölfar herforingjabyltingar árið 1980 missti hún embætti sitt og sat um tíma í fangelsi. Þegar Charles Taylor tók að þjarma að herforingjunum upp úr 1990 gerði Johnson-Sirleaf þau mistök að styðja hann tímabundið en það kom á daginn að hann var engu skárri en þeir sem höfðu haldið um valdataumana í landinu.

Erfitt verk bíður nýja forsetans því efnahagur landsins er í rúst og tortryggni er enn ríkjandi eftir margra ára borgarastyrjöld. Johnson-Sirleaf virðist hins vegar horfa björtum augum til framtíðar. "Konur eru reiðubúnar að skrifa söguna," sagði hún við stuðningsmenn sína í gær. "Og karlarnir eru tilbúnir að vinna með okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×