Erlent

56 létust í árásum al-Kaída

Reiði í Amman. Verkalýðsfélög skipulögðu mótmæli í Amman í gær og hrópuðu hundruð Jórdana ókvæðisorð að landa sínum, Abu Musab al-Zarqawi, leiðtoga al-Kaída í Írak, en samtökin kváðust hafa staðið fyrir tilræðunum.
Reiði í Amman. Verkalýðsfélög skipulögðu mótmæli í Amman í gær og hrópuðu hundruð Jórdana ókvæðisorð að landa sínum, Abu Musab al-Zarqawi, leiðtoga al-Kaída í Írak, en samtökin kváðust hafa staðið fyrir tilræðunum. NordicPhotos/AFP

Að minnsta kosti 56 manns fórust í sprengjutilræðunum þremur í Amman, höfuðborg Jórdaníu, í fyrrakvöld. Al-Kaída í Írak hefur lýst yfir ábyrgð á ódæðunum og segir þau framin til að refsa Jórdönum fyrir þýlyndi við Bandaríkjamenn.

Sprengingarnar urðu nánast samtímis á þremur hótelum sem Vesturlandabúar gista gjarnan á, Radisson SAS, Grand Hyatt og Days Inn, um níuleytið á miðvikudagskvöld. Sprengjan á Radisson-hótelinu sprakk í sal þar sem 300 manna brúðkaupsveisla fór fram. Sérfræðingar segja að málmkúlulegur hafi verið settar í sprengjurnar til að valda sem mestu líkamstjóni.

Í gær lá ljóst fyrir að í það minnsta 56 hefðu beðið bana í tilræðunum þremur. 33 þeirra sem dóu voru Jórdanar en hinir voru af ýmsum þjóðernum. "Við reiknum með að fleiri eigi eftir að látast af sárum sínum, að minnsta kosti tveir eru mjög alvarlega slasaðir," sagði Bassel Tarawnhe, talsmaður ríkisstjórnarinnar, í samtali við AP-fréttastofuna í gær.

Á annað hundrað manns særðust í sprengingunum. Al-Kaída í Írak birti í gær yfirlýsingu á vefsíðu þar sem samtökin gumuðu af því að hafa staðið fyrir tilræðunum. Í yfirlýsingunni sagði að árásirnar hefðu verið gerðar þar sem Jórdanía "væri bakgarður fyrir óvini trúarinnar, gyðinga og krossfara...saurugur bólstaður svikaranna og hórdómsbæli".

Í kjölfar yfirlýsingarinnar þusti talsverður fjöldi fólks út á götur höfuðborgarinnar og hrópaði ókvæðisorð að samtökunum og Abu Musab al-Zarqawi, leiðtoga þeirra, en hann er fæddur í Jórdaníu. "Megir þú brenna í víti, al-Zarqawi," hrópuðu sumir. "Við fórnum lífi okkar fyrir þig, Amman," kölluðu aðrir.

Flestir þjóðarleiðtogar heims sendu Jórdönum samúðarkveðjur sínar og fordæmdu um leið hryðjuverkin. Slíkt hið sama gerðu forsvarsmenn alþjóðastofnana á borð við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Bush Bandaríkjaforseti sagði illvirkjana koma óorði á íslam og hét aðstoð ríkisstjórnar sinnar við að koma lögum yfir þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×