Erlent

Fjárhagstjónið verður mikið

Hrátt fuglakjöt. Rúmlega sextíu manns hafa dáið úr fuglaflensu í Asíu undanfarin misseri en þeir eiga það sameiginlegt að hafa komist í snertingu við sýkta fugla eða kjöt.
Hrátt fuglakjöt. Rúmlega sextíu manns hafa dáið úr fuglaflensu í Asíu undanfarin misseri en þeir eiga það sameiginlegt að hafa komist í snertingu við sýkta fugla eða kjöt.

Banvænn fuglaflensufaraldur er svo gott sem óumflýjanlegur og ef alþjóðasamfélagið undirbýr sig ekki nægilega vel geta ómældar þjáningar beðið jarðarbúa. Þetta voru skilaboð framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO í gær.

"Við höfum orðið vitni að látlausri útbreiðslu fuglaflensu á meðal farfugla og alifugla," sagði Lee Jong-wook, framvkvæmdastjóri WHO, á samræmingarfundi sérfræðinga á sviði heilbrigðismála víðsvegar að úr heiminum í Genf í gær. Í ávarpi sínu lagði Lee áherslu á að H5N1-veiran hefði ekki ennþá stökkbreyst svo hún gæti borist á milli manna en það væri samt sem áður aðeins tímaspursmál.

Á fundinum greindi Milan Brahm­bhatt, aðalhagfræðingur Alþjóðabankans á sviði Austur-Asíu og Kyrrahafslanda, frá mati bankans á efnahagsáhrifum heimsfaraldurs fuglaflensu. Samkvæmt spám Alþjóðabankans myndi slíkur faraldur valda tveggja prósenta samdrætti á heimsframleiðslunní á ári, sem jafngildir um 50.000 milljarða króna tekjutapi.

Til saman­burðar má geta að árleg þjóðarframleiðsla Íslendinga er um 800 milljarðar króna. Hagfræðingar bankans reikna með að stærstur hluti samdráttarins verði vegna "ofsahræðslu og óðagots", líkt og gerðist þegar bráðalungnabólgan SARS kom upp árið 2003 en þá dróst einmitt þjóðar­framleiðsla ríkja Austur-Asíu saman um tvö prósent.

Á fundinum ítrekuðu talsmenn WHO enn og aftur nauðsyn þess fyrir alþjóðasamfélagið að undirbúa sig í tíma fyrir flensufaraldurinn yfirvofandi en stofnunin telur líklegt að 7,4 milljónir manna gætu látist úr veikinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×