Erlent

Svartur dagur hjá Tony Blair

Hefur beðið Hnekki. Tony Blair sætir gagnrýni úr öllum áttum fyrir að vanmeta hversu alvarleg mistök vinur sinn David Blunkett gerði sem síðan leiddu til afsagnar hans.
Hefur beðið Hnekki. Tony Blair sætir gagnrýni úr öllum áttum fyrir að vanmeta hversu alvarleg mistök vinur sinn David Blunkett gerði sem síðan leiddu til afsagnar hans.

Dómgreindarskortur er sú einkunn sem bresku blöðin gefa Tony Blair, forsætisráðherra sínum, í leiðurum í gær fyrir að hafa stutt David Blunkett nánast gagnrýnislaust þrátt fyrir augljós mistök þess fyrrnefnda.

Miðvikudagurinn er án efa einn sá erfiðasti sem Tony Blair hefur gengið í gegnum á átta ára langri forsætisráðherratíð sinni. Einn dyggasti stuðningsmaður hans, David Blunkett, ráðherra atvinnu- og lífeyrismála, sagði af sér embætti eftir að upp komst að hann hafði vanrækt að greina þingnefnd frá tekjum sínum og hagsmunatengslum frá því fyrir kosningarnar í vor. Til að bæta gráu ofan á svart munaði svo minnstu að neðri deild þingsins næði að fella mikilvægt stjórnarfrumvarp um varnir gegn hryðjuverkum.

Allt fram á síðustu stundu hvatti Blair vin sinn til að sitja í ráðherrastól sínum enda þótt gagnrýnin á Blunkett ykist úr öllum áttum. Eftir að hann tilkynnti svo afsögn sína kom í ljós að honum hafði einnig láðst þar til á þriðjudaginn, þegar málið var komið í hámæli, að greina frá aukatekjum sem hann hafði haft af ræðuhöldum og tengdum uppákomum upp á ríflega 2,5 milljónir króna. Síðar um daginn samþykkti neðri deildin með aðeins eins atkvæðis mun útþynnt frumvarp Charles Clarke innanríkisráðherra um bann við "vegsömun" hryðjuverka eftir að Clarke neyddist til að draga til baka umdeild ákvæði þess um að heimilt væri að halda grunuðum hryðjuverkamönnum í allt að níutíu daga án ákæru. Bresku blððin fjalla um vandræði Blairs í forystugreinum sínum í gær.

Lundúnablaðið Times gagnrýnir forsætisráðherrann fyrir að hafa tekið á afsögn Blunketts fyrir ellefu mánuðum af léttúð og sýnt dómgreindarskort þegar hann skipaði vin sinn svo aftur í embætti ráðherra í vor. "Það er umhugsunarefni hvers vegna Blair sýndi þessa hegðun. Ef til vill var hann blindaður af vinarþeli í garð náins samstarfsmanns, sem er lofsverður eiginleiki í fari manneskju en ekki forsætisráðherra." Daily Telegraph, sem er hallt undir Íhaldsflokkinn, rifjar upp þegar Peter Mandelson, annar náinn samstarfsmaður Blairs, varð í tvígang á árunum 1998-99 að segja af sér ráðherraembætti vegna fjármálaóreiðu.

"Allir leiðtogar geta gert mistök þegar þeir velja sér samstarfsmenn. Blair á hinn bóginn virðist ekki geta eða vilja læra af þeim mistökum sem hann gerir, annaðhvort vegna hroka eða barnaskapar." Nick Robinson, ritstjóri stjórnmálafrétta BBC segir "ekki sérstaklega heilsusamlegt í pólitísku tilliti að tengjast forsætisráðherranum þessa dagana," og leiðarahöfundur dagblaðsins Guardian, eins tryggasta bakhjarls Verkamannaflokksins, segir að "allir forsætisráðherrar missi trúðverðugleika sinn að lokum. Þessi er í alvarlegum vandræðum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×