Erlent

Önnur afsögnin á einu ári

Afsögnin tilkynnt. David Blunkett hélt blaðamannafund í Lundúnum í gær þar sem hann tilkynnti afsögn sína.
Afsögnin tilkynnt. David Blunkett hélt blaðamannafund í Lundúnum í gær þar sem hann tilkynnti afsögn sína.

David Blunkett, ráðherra atvinnu- og lífeyrismála bresku ríkisstjórnarinnar, sagði af sér embætti í gær. Þetta er í annað sinn á tæpu ári sem Blunkett stígur úr ráðherrastóli. Blunkett hefur undanfarna daga sætt gagnrýni fyrir að hafa vikurnar fyrir þingkosningarnar í vor stýrt líftæknifyrirtæki sem gerði meðal annars samninga við ríkisstjórnina um verkefni. Honum láðist að ráðfæra sig við sérstaka þingnefnd um hvort hann gæti tekið að sér starfið en starfsreglur ríkisstjórnarinnar kveða afdráttarlaust á um að slíkt beri að gera.

Málið þykir verulegur álitshnekkir fyrir Tony Blair forsætisráðherra sem veitt hefur Blunkett fullan stuðning í orrahríðinni undanfarið. Að sögn BBC kvaðst Blunkett sérstaklega harma að hafa valdið vini sínum þessum vandræðum. Michael Howard, fráfarandi leiðtogi íhaldsmanna, skaut föstum skotum á forsætisráðherrann og sagði hann óstarfhæfan vegna málsins. Í desember í fyrra sagði Blunkett af sér sem innanríkisráðherra eftir að upp komst að hann hafði veitt barnfóstru ástkonu sinnar forgang þegar hún sótti um dvalarleyfi í Bretlandi. Síðdegis í gær var svo greint frá því að John Hutton tæki við ráðherraembættinu af Blunkett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×