Erlent

Fangar leynilega í haldi

Bush og Goss. George W. Bush Bandaríkjaforseti (í miðju) og Porter Goss, yfirmaður CIA, tala við blaðamenn í anddyri höfuðstöðva leyniþjónustunnar í Langley í Virginíu.
Bush og Goss. George W. Bush Bandaríkjaforseti (í miðju) og Porter Goss, yfirmaður CIA, tala við blaðamenn í anddyri höfuðstöðva leyniþjónustunnar í Langley í Virginíu.

Bandaríska leyniþjónustan CIA hefur falið marga mikilvægustu fanga "stríðsins gegn hryðjuverkum" í gömlu fangelsi í Austur-Evrópu og stundað þar yfirheyrslur yfir þeim, að því er dagblaðið The Washington Post hafði í gær eftir erindrekum Bandaríkjastjórnar og erlendra ríkja sem til málsins þekkja.

Hinar leynilegu fangabúðir eru hluti af leynilegu fangelsakerfi sem CIA kom á fót fyrir um fjórum árum, í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Kerfið hefur á þessu tímabili teygt anga sína til að minnsta kosti átta landa. Þar á meðal kváðu vera Taíland, Afganistan og nokkur fyrrverandi austantjaldslönd.

Þessar fullyrðingar byggir Washington Post á frásögnum fyrrverandi og núverandi leyniþjónustumanna og stjórnarerindreka frá Bandaríkjunum og löndum í þremur heimsálfum. Að sögn Washington Post hvílir mikil leynd yfir tilveru þessara "svörtu staða", eins og þeir eru nefndir, og vita aðeins fáeinir æðstu embættismenn í Bandaríkjunum og viðkomandi löndum um staðsetningu þeirra og starfsemi innan veggja þar.

Blaðið virðist hafa nöfn viðkomandi landa undir höndum en birtir þau ekki að kröfu háttsettra fulltrúa Bandaríkjastjórnar. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur birt margar skýrslur og vitnisburði um aðstæður og aðferðir sem beitt er í fangelsum hersins, einkum og sér í lagi eftir hneykslið vegna fangamisþyrminga í Abu Ghraib-fangelsinu í Bagdad og mikillar og gagnrýninnar fjölmiðlaumfjöllunar um fangabúðirnar í Guantanamo á Kúbu. Hins vegar hefur CIA hingað til ekki einu sinni gengist við tilvist hinna svonefndu "svörtu staða".

Það kváðu stjórnendur þar á bæ forðast eins og heitan eldinn vegna ótta við að bandarískum yfirvöldum verði stefnt fyrir rétt fyrir erlendum dómstólum og hættunnar á pólitískri fordæmingu bæði heima fyrir og erlendis. Eins og fram er komið hafa þó nokkrar flugvélar, sem í Danmörku er talið að annist fangaflutninga fyrir CIA, haft viðkomu hér á landi síðustu misseri. Nokkrar þessara véla hafa verið á leið til eða frá Austur-Evrópu. Ein slík flugvél fór frá Reykjavík til Búdapest í Ungverjalandi í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×