Erlent

Boðar harða stjórnarandstöðu

Donald Tusk leiðtogi stjórnarandstöðunnar.
Donald Tusk leiðtogi stjórnarandstöðunnar.

Donald Tusk, leiðtogi frjálshyggjuflokksins Borgaravettvangs í Póllandi, boðaði í gær "mjög harða" stjórnarandstöðu flokks síns við nýja minnihlutastjórn íhaldsflokksins Laga og réttlætis, sem tók við embætti á mánudag. "Borgaravettvangur mun ganga hreinna til verks en nokkur stjórnarandstaða til þessa," sagði Tusk í útvarpsviðtali.

Borgaravettvangur fékk lítið eitt minna fylgi en Lög og réttlæti í þingkosningunum í september og vonir um að þessir tveir flokkar mynduðu ríkisstjórn saman fóru út um þúfur í síðustu viku. Tusk tapaði líka fyrir Lech Kaczynski, frambjóðanda Laga og réttlætis, í úrslitaumferð forsetakosninga um þarsíðustu helgi. Flokkurinn Lög og réttlæti, sem hefur 155 fulltrúa af 460 í neðri deild þingsins, hefur nú skipað sínum mönnum í öll æðstu valdaembætti.

Tusk sagði í bili ekkert um hvernig þingflokkur Borgaravettvangs hygðist haga atkvæðum sínum er atkvæðagreiðsla um traust á ríkisstjórnina fer fram á þinginu þann 10. nóvember. En hann hefur gagnrýnt mjög að Lög og réttlæti leggi lag sitt við hægripopúlistann Andzej Lepper og flokk hans, "Sjálfsvörn". Búist er við að "Sjálfsvörn" og tveir aðrir smáflokkar á hægr jaðrinum muni verja minnihlutastjórnina falli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×