Erlent

Stoiber ekki í stjórn

Stoiber og Müntefering. Gagnkvæmt traust ríkir milli þungavigtarmannanna tveggja.
Stoiber og Müntefering. Gagnkvæmt traust ríkir milli þungavigtarmannanna tveggja.

Mikil spenna er hlaupin í stjórnarmyndunarviðræðurnar í Þýskalandi milli jafnaðarmanna og kristilegra demókrata í kjölfar þess að Franz Müntefering upplýsti að hann hygðist hætta formennsku í Jafnaðarmanna­flokknum og jafnvel ekki taka sæti í samsteypustjórninni.

Edmund Stoiber, leiðtogi CSU, systurflokks kristilega demókrataflokksins í Bæjaralandi, tilkynnti í gær að hann myndi ekki taka sæti í stjórninni heldur. Michael Glos, formaður þingflokks CSU á Sambandsþinginu í Berlín, verður ráðherra efnahags- og tæknimála í stað Stoibers - ef stjórnin kemst á laggirnar. Stoiber tjáði blaðamönnum í München að flokkur sinn myndi samt styðja hina væntanlegu "stóru samsteypu" sem til stendur að Angela Merkel, leiðtogi kristilegra demókrata, fari fyrir. Stoiber, sem er forsætisráðherra Bæjaralands og var kanslaraefni kristilegu flokkanna í kosningunum 2002, sagði að staðan í stjórnarmyndunarviðræðunum hefði breyst við að Müntefering hætti sem formaður SPD.

Til hefur staðið að Müntefering verði varakanslari og ráðherra atvinnumála í samsteypustjórninni. Stoiber hefur lýst Müntefering sem "hornsteini" hins fyrirhugaða stjórnarsamstarfs. Stjórnmálaskýrendur í Þýskalandi telja ekki útilokað að stjórnarmyndunarviðræðurnar fari út um þúfur. Slíkar raddir var líka að heyra í röðum kristilegra demókrata. "Það er alveg opið eins og er hvort af þessu stjórnarsamstarfi verður," lét Jürgen Rüttgers, forsætisráðherra Nordrhein-Westfalen, hinu fjölmennasta þýsku sambandslandanna 16, hafa eftir sér í gær.

Upptök vandræðanna eru þau að Andrea Nahles, kokhraustur fulltrúi vinstriarms SPD, felldi óvænt þann sem Müntefering vildi að yrði næsti framkvæmdastjóri flokksins, Kajo Wasserhövel, í atkvæðagreiðslu í flokksstjórninni. Í kjölfarið tilkynnti Müntefering að hann myndi ekki gefa kost á sér áfram í flokksformennskuna á flokksþingi nú um miðjan mánuðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×