Erlent

Treystir á stuðning jaðarflokka til hægri

KAZIMIERZ MARCINKIEWICZ. 
Nýr forsætisráðherra Póllands.
KAZIMIERZ MARCINKIEWICZ. Nýr forsætisráðherra Póllands.

Kazimierz Marcinkiewicz sór á mánudag embættiseið sem nýr forsætisráðherra Póllands. Hann fer fyrir minnihlutastjórn íhaldsflokksins Laga og réttlætis (PiS). Aleksander Kwasniewski, fráfarandi forseti Póllands, tók embættiseiðinn af Marcinkiewicz í forsetahöllinni í Varsjá. Þar var síðan nýja ríkisstjórnin, sem skipuð er sautján ráherrum, sett í embætti.

Nokkrir ráðherrar eru ekki úr flokki Marcinkiewicz, en tilgangurinn með því er að breikka stuðning við hana á þingi. Lög og réttlæti hefur 155 af 460 fulltrúum í neðri deild pólska þingsins, en flokkurinn greip til þess ráðs að mynda minnihlutastjórn eftir að viðræður um myndun meirihlutastjórnar með frjálshyggjuflokknum Borgaravettvangi fóru út um þúfur í síðustu viku. Stjórnin þarf að standast atkvæðagreiðslu um traustsyfirlýsingu á þingi þann 10. nóvember.

Marcinkiewicz sagðist áfram myndi reyna að afla stuðnings Borgaravettvangs og valið á ráðherrum virðist til þess fallið að ýta undir það. Þannig er til dæmis utanríkisráðherrann Stefan Meller ekki í neinum flokki, en hann var sendiherra Póllands í Moskvu. En það eru þrír flokkar á hægri jaðrinum; Sjálfsvörn (Samoobrona), Bændaflokkurinn og Pólska fjölskyldufylkingin - sem væntanlega munu standa saman um að verja minnihlutastjórnina falli. Donald Tusk, leiðtogi Borgaravettvangs, gagnrýndi Lög og réttlæti fyrir að velja að gera "Sjálfsvörn" hægripopúlistans Andrzej Lepper að bandamanni sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×