Erlent

Bush útnefnir Alito hæstaréttardómara

Nýi dómarinn Bush telur Alito bæði fróðan og réttsýnan en tæpast skemmir fyrir að þeir eru skoðanabræður í mörgum málum.
Nýi dómarinn Bush telur Alito bæði fróðan og réttsýnan en tæpast skemmir fyrir að þeir eru skoðanabræður í mörgum málum.

Í viðleitni sinni til að friða félaga sína í repúblikanaflokknum tilnefndi George W. Bush Bandaríkjaforseti Samuel Alito hæstaréttardómara. Demókratar hyggjast berjast gegn tilefningunni í öldungadeild þingsins. Óhætt er að segja að erfiðlega hafi gengið fyrir Bush að skipa eftirmann Söndu Day O'Connor í Hæstarétt Bandaríkjanna en í síðustu viku afþakkaði Harriet Miers útnefningu forsetans eftir að íhaldssamari flokksbræður hans mótmæltu skipaninni harðlega.

Tilefning hins íhaldssama Samuel Alito, kaþólikka frá New Jersey, ber því vitni að Bush vilji friða sína helstu stuðningsmenn enda á hann talsvert í vök að verjast. Ný skoðanakönnun bendir til dæmis til að einungis 39 prósent þjóðarinnar myndi kjósa Bush væri gengið til kosninga nú. "Alito dómari er einn reyndasti og virtasti dómari Bandaríkjanna," sagði Bush þegar hann greindi frá útnefningunni. "Hann er mikill lögspekingur og afar réttsýnn." Bush hvatti öldungadeildina til að staðfesta tilnefninguna en til þess hefur hún frest til ársloka. Alito er 55 ára að aldri en hefur langa reynslu sem dómari að baki því undanfarin ár hefur hann setið í áfrýjunardómstól í Philadelphia. Sá dómstóll þykir einn sá frjálslyndasti í landinu en Alito er oft ósammála félögum sínum í réttinum og skilar gjarnan séráliti.

Demókratar virðast líklegir til ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir skipunina enda þykir víst að Alito muni taka mun íhaldssamari afstöðu í dómum sínum en O'Connor, sem oft snerist á sveif með frjálslyndari hluta hæstaréttar í umdeildum málum á borð við fóstureyðingar og dauðarefsingar. "Öldungadeildin verður að skera úr um hvort maðurinn sem kemur í stað Miers sé of róttækur fyrir bandarísku þjóðina," sagði Harry Reid, leiðtogi demókrata í deildinni. Jim Jordan, einn af ráðgjöfum demókrata, tók í svipaðan streng og sagði að með útnefningunni ætlaði Bush sér að efna til ófriðar í öldungadeildinni til að beina athyglinni frá öðrum og stærri áhyggjuefnum, svo sem ásökunum á hendur nánum samstarfsmönnum sínum um að hafa ljóstrað upp um nafn leyniþjónustumanns CIA, mannfalls bandarískra hermanna í Írak og bágs efnahagsástands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×