Erlent

Stjórnarskrá ESB í uppnámi

Tony Blair, forsætisráðherra Breta, virðist ætla að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Líklegt þykir að Jack Straw utanríkisráðherra lýsi því yfir í breska þinginu í dag að þjóðaratkvæðagreislunni verði slegið á frest eða jafnvel aflýst. Peter Mandelsson, viðskiptaráðherra Evrópusambandsins og fyrrverandi ráðherra í stjórn Blairs, segir í grein í breska blaðinu Observer að það væri óðs manns æði að hafna stjórnarskránni og hvetur ríkisstjórnina til þess að fresta ekki þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann segir þó augljóst að ekki hafi tekist sem skyldi að selja almenningi hugmyndina um sameinaða Evrópu. Í Svíþjóð stóð til að þingið staðfesti stjórnarskrána en nú virðist komið babb í bátinn í kjölfar úrslitanna í Hollandi og Frakklandi. Vinstriflokkurinn sem er einn þeirra flokka sem ver ríkisstjórn Görans Persson falli hefur nú hótað því að hætta stuðningi við ríkisstjórnina ef því verður haldið til streitu að stjórnarskráin skuli samþykkt. Hinsvegar má telja líklegt að Vinstriflokkurinn standi ekki við þær hótanir þar sem staða hans er mjög veik eftir að fyrrverandi formaður flokksins, Gudrun Schyman, stofnaði kvennaframboðið Feministisk initiativ. Í Danmörku þar sem flestir stjórnmálaflokkarnir hafa verið mjög hlynntir stjórnarskránni virðast já-menn eitthvað vera farnir að draga í land. Enginn flokkanna hefur þó fengist til að segja að blása skuli fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu af en á móti kemur að enginn flokkanna er heldur tilbúinn að lofa því að af atkvæðagreiðslunni verði. Chirac Frakklandsforseti og Schröder, kanslari Þýskalands, hittust í Berlín um helgina til að ræða næstu skref í gildistökuferlinu. Þeir lýstu því sameiginlega yfir í kjölfar fundarins að þeir teldu að halda skyldi ferlinu áfram og það væri nauðsynlegt að hvert og eitt ríki fengi tækifæri til að segja sína skoðun á greinilega umdeildri stjórnarskrá Evrópusambandsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×