Erlent

Átti að hindra handtöku bin Ladens

MYND/Reuters
Fyrrverandi lífvörður Osama bin Ladens segir að hann hafi fengið skipun um að drepa leiðtogann, ef hætta væri á því að hann yrði handtekinn. Þessi fyrrverandi lífvörður segir að hann hafi unnið fyrir Osama bin Laden á árunum 1995 til 2000 og að á þeim tíma hafi þrisvar verið reynt að ráða hann af dögum. Bin Laden var hins vegar vel vaktaður og hafði aldrei færri en fimmtán lífverði í kringum sig. Lífvörðurinn sem um ræðir heitir Nasir Ahmad Nasir al-Bahri og er 35 ára Jemeni. Hann segir að hann hafi verið sá eini í hópnum sem hafi fengið fyrirmæli um að drepa bin Laden ef óvinir kæmust það nálægt honum að hætta væri á að hann yrði handtekinn. Al-Bahri segir að hann hafi á hverju kvöldi fægt tvær byssukúlur sem hann átti að skjóta í hryðjuverkamanninn. Hann segir einnig að Sádi-Arabar hafi margsinnis reynt að lokka bin Laden heim. Í eitt skiptið hafi móðir hans og hálfbróðir verið send til Afganistans með sérstakri flugvél ríkisstjórnarinnar. Í annað skipti hafi Turki al-Faisal prins komið til Kandahar, en al-Faisal er nú sendiherra Sádi-Arabíu í Bretlandi. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Osama bin Laden fór ekki heim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×