Erlent

Bush sendir fleiri hermenn

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að 7.200 hermenn og 10.000 þjóðvarðliðar verði sendir til björgunarstarfa á hamfarasvæðin í Louisiana. Björgunarsveitarmennirnir verða því um fjörutíu þúsund á næstu tveimur sólarhringum. "Margir borgarar eru einfaldlega ekki að fá þá hjálp sem þeir þurfa, sérstaklega í New Orleans, og það er óviðunandi," sagði Bush þegar hann tilkynnti áformin í kjölfar gagnrýni á seinagang við björgunarstörfin. "Við yfirgefum ekki samborgara okkar hér í Bandaríkjunum þegar þeir þurfa á hjálp að halda." Floti loftkældra rúta var í gær sendur eftir 25 þúsundum manna sem hafa beðið eftir að verða sóttir í ráðstefnumiðstöðina í New Orleans síðan fellibylurinn Katrín reið yfir. Fólkið beið innan um stæka lykt af rusli og rotnandi líkum samborgara sinna. Þúsundir voru fluttar úr Superdome-leikvanginumi til Texas í gær en snemma dags var fólksflutningum þaðan hætt þrátt fyrir að tvö til fimm þúsund væru enn á svæðinu. Á meðal þeirra sem urðu eftir í höllinni var 25 ára móðir sem ekki vissi um börnin sín fjögur. Fólkið hefur nú fengið bæði vatn og mat sem ekki bauðst fyrstu dagana. Yolanda Sander var meðal þeirra sem biðu í ráðstefnumiðstöðinni í borginni. Þar hafði hún verið í fimm daga. "Ég trúði því alltaf að við yrðum sótt. Mér líður vel að fá loks að hitta fjölskyldu mína," sagði hún en vissi þó ekki hvert leiðin lægi. "Allir staðir eru betri en þessi. Fólk deyr hér allt um kring." Styrktartónleikar vegna hamfaranna sem sendir voru í beinni útsendingu frá New York á sjónvarpsstöðinni NBC á föstudagskvöld tóku óvænta stefnu þegar tónlistarmaðurinn Kanye West fór út fyrir hefðbundna dagskrá. "Það er ljóst að það er verið að hjálpa þeim fátæku og þeim svörtu eins hægt og mögulegt er," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×