Erlent

Enn óeirðir í Frakklandi

Útgöngubann hefur verið sett á í Lyon, annarri strærstu borg Frakklands, og í tíu öðrum bæjum þar í grennd, til að reyna að binda enda á óeirðirnar þar. Öryggisgæsla var hert til muna í París í morgun vegna ótta um að óeirðaseggir létu til skarar skríða, en nokkuð virðist hafa dregið úr ólgunni þar.

Óöldin í Frakklandi hélt áfram í nótt þegar skemmdir voru unnar á skólabyggingum og verslunum og kveikt var í meira en fimm hundruð bifreiðum víðsvegar um landið, meðal annars í Strasbourg, Marseille og Lyon. Franska lögreglan handtók um tvö hundruð óeirðaseggi, en alls hafa rúmlega tvö þúsund og fjögur hundruð manns verið handteknir undanfarnar tvær vikur.

Frönsk yfirvöld gripu til frekari varúðarráðstafana í miðborg Parísar, þar sem búist var við óeirðum vegna ákvörðunar stjórnvalda um sólarhringsbann við almennum fundum utandyra, sem tók gildi í morgun. Þúsundir lögreglumanna standa vaktina í höfuðborginni, en talið er að óeirðaseggir hvetji til skemmdarverka vegna bannsins.

Í Lyon, annarri stærstu borg Frakklands, hefur verið sett á útgöngubann, sem gildir yfir helgina, en samkvæmt því mega börn undir lögaldri ekki vera úti frá klukkan tíu á kvöldin til sex á morgnana, án þess að vera í fylgd með fullorðnum. Bannið nær einnig til tíu annarra bæja í grennd við Lyon, en um þrjátíu borgir og bæir hafa gripið til útgöngubanns frá því óeirðirnar byrjuðu í Frakklandi fyrir rúmum tveimur vikum.

Þótt ólætin hafi haldið áfram í Frakklandi undanfarna sólarhringa, hefur verulega dregið úr óeirðunum í landinu frá því stjórnvöld tóku í gildi neyðarlög sem meðal annars heimiluðu að sett yrði á útgöngubann. Nú undir kvöld var allt með kyrrum kjörum í París og í úthverfum borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×