Erlent

Stórsóknin hafin í Najaf

Bandarískar hersveitir gripu í tómt þegar þær réðust til inngöngu á heimili shíta-klerksins Muqtada al-Sadr í borginni Najaf í Írak í gær. Harðir bardagar geisuðu í Najaf eftir að stórsókn íraskra og bandarískra hersveita hófst þar snemma í fyrrinótt. Með árásinni vilja Bandaríkjamenn og bráðabirgðastjórnvöld í Írak ráða niðurlögum andspyrnuhreyfingar al-Sadr i Najaf og kveða þar með niður uppreisn shíta í Írak. Óljóst er um afdrif al-Sadrs en hann hvatti í fyrradag liðsmenn sína til að berjast til síðasta manns. Ayad Allawi, forsætisráðherra Íraks, hvatti uppreisnarmenn í gær til að leggja niður vopn og yfirgefa miðborg Najaf þar sem þeir hafast við í helgum byggingum shíta. Bandaríkjamenn staðfestu í gær að Allawi þyrfti að heimila sérstaklega að ráðist yrði til atlögu við uppreisnarmenn í hinum helgu byggingum og að einungis íraskar hersveitir myndu taka þátt í slíku áhlaupi. Þúsundir bandarískra hermanna tóku þátt í árásinni á Najaf í gær. Bandarísk hermálayfirvöld takmörkuðu mjög fréttaflutning frá Najaf í gær en árásin hófst með því að skriðdrekar Bandaríkjamanna mynduðu fylkingu í kirkjugarði í útjaðri borgarinnar, herþyrlur sveimuðu yfir og skyttur komu sér fyrir á húsþökum. Uppreisnarmenn vörðust með sprengjuvörpum en hörfuðu innar í borgina eftir því sem á leið. Mannfall varð í röðum óbreyttra borgara en þeir höfðu verið hvattir til að yfirgefa borgina áður en árásin hófst. Engar fregnir bárust af mannfalli í röðum stríðandi fylkinga. Harðir bardagar geisuðu víðar um Írak í gær og féllu hundruð manna. Stjórnvöld í arabaríkjum og Íran hvöttu í gær til að bardögum í hinni helgu borg Najaf yrði hætt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×