Erlent

Taívanar svara fyrir sig

Taívanski herinn gæti varið landið fyrir kínverskri innrás í tvær vikur og valdið gríðarlegu manntjóni að sögn taívönsku herstjórnarinnar. Kínverjar eru sannfærðir um að forseti Taívans, Chen Shui-bian, muni nota síðara kjörtímabil sitt til þess að lýsa yfir fullu sjálfstæði landsins. Kínverjar líta á Taívan sem hluta af meginlandinu og hafa margoft lýst því yfir að slíkur gjörningur yrði brotinn á bak aftur með vopnavaldi. Spenna hefur því farið vaxandi í þessum heimshluta síðan Chen var endurkjörinn í mars síðastliðnum. Fyrr í þessari viku birtu dagblöð á Taívan fregnir af því að tölvuhermir hefði spáð því að Kínverjar gætu hertekið Taípei, höfuðborg landsins, á aðeins sex dögum. Taívanska herstjórnin hefur ekki tjáð sig opinberlega um þetta en hins vegar lekið út fréttum um að forritun tölvunnar hafi verið ábótavant. Hún hafi verið forrituð til þess að klára leikinn á sex dögum og hafi ranglega uppfært getu kínverska heraflans í samræmi við það. Taívanar segja að að herinn geti varið landið í að minnsta kosti tvær vikur upp á eigin spýtur og valdið gífurlegu manntjóni hjá Kínverjum. Þá hafi ekki verið tekið inn í dæmið aðstoð frá Bandaríkjunum sem eru skuldbundin til þess að verja sjálfstæði Taívans. Chen Shui-bian, forseti Taívans, sést hér til vinstri ásamt Tony Saca, forseta El Salvador.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×