Erlent

Öryggið minnkar

Öryggisaðstæður í Kabúl í Afganistan hafa versnað til mikilla muna síðustu vikurnar og útlendingar í borginni eru slegnir. Mannræningjar sem halda þremur gíslum krefjast þess að allar erlendar hersveitir hverfi á brott. Að öðrum kosti verði gíslarnir myrtir. Öfgahópar læra hratt hvor af öðrum. Mannræningjarnir sem rændu þremur kosningaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna í Kabúl í vikunni hafa nú sent frá sér myndband af gíslunum en þetta er nákvæmlega sama aðferð og íraskir öfgahópar hafa stundað í nokkurn tíma. Mannræningjarnir í Afganistan hóta að taka gíslana af lífi verði ekki orðið við kröfum þeirra sem snúast um að erlendar hersveitir fari frá landinu, Sameinuðu þjóðirnar hætti starfsemi sinni og föngum í haldi Bandaríkjastjórnar, meðal annars í Guantanamo, verði sleppt. Yves Daccord, yfirmaður hjá Alþjóða Rauða krossinum segir að þetta hafi legið lengi í loftinu, en það sem sé nýtt, sé að þeir hafi rænt fólki til þess að setja þrýsting á hersveitir bandamanna eða erlend fyrirtæki. Um tvöþúsund útlendingar, þar á meðal nokkrir Íslendingar, starfa í Kabúl, ýmist við hjálparstörf eða friðargæslu. Atburðir síðustu vikna, sjálfsmorðsárásin um síðustu helgi og mannránið í vikunni, hafa vakið ugg meðal þessa fólks. Sameinuðu þjóðirnar ætla þó ekki að draga úr starfsemi sinni í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×