Erlent

Harðir bardagar í Najaf

Enn geisa bardagar í borginni Najaf í Írak. Varaforseti landsins krefst þess að Bandaríkjamenn fari frá borginni. Barist er í Najaf sjöunda daginn í röð. Bandaríski herinn telur að dregið hafi úr átökunum í gær og í dag en þeir segja að yfir 350 uppreisnarmenn hafi látið lífið síðustu daga. Götur eru auðar, almenningur þorir ekki út fyrir hússins dyr og Bandaríkjamenn hafa sett upp vegatálma víðsvegar um borgina og lokað heilu hverfunum. Þeir aka nú um Najaf og hvetja íbúa til að flýja borgina á meðan átök standa yfir. Mestu bardagarnir eru í miðbænum en uppreisnarmenn hafa leitað skjóls inni í heilögum byggingum sjíta múslima. Telja margir að Bandaríkjamenn hyggist gera harðar árásir á uppreisnarmenn á næstu dögum. Herflugvélar hafa sveimað yfir borginni fram eftir morgni. Varaforseti íröksku bráðabirgðastjórnarinnar, Ibrahim Jaafari, vill hins vegar að liðsmenn hernaðarbandalags Bandaríkjanna hörfi. Jaafari vill að írakskar öryggissveitir verði áfram í borginni til að koma á friði. Telur hann að Írakar sætti sig frekar við að þeirra eigin sveitir geri árásir á uppreisnarmenn og heilaga staði en ekki erlendar hersveitir. Ekki er víst að Írakar sjálfir fái betri útreið í Najaf því fylgismenn sjítaklerksins, Moqtada al-Sadr, rændu í gær nokkrum írökskum lögreglumönnum og segjast hafa hálshöggvið einn þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×