Erlent

Ekki sátt um aukinn herafla

Það er talið fullvíst að breska ríkisstjórnin ákveði í dag að senda breska hermenn til að að aðstoða Bandaríkjaher við að koma böndum á uppreisnarhópa í Bagdad og nágrenni. Málið er líklegt til að valda uppþoti innan Verkamannaflokksins. Fram til þessa hafa breskar hersveitir einungis verið að störfum í suðurhluta Íraks, í kringum Basra en Bandaríkjastjórn hefur formlega farið fram á það við Breta að þeir sendi sér liðsauka við að ná stjórn á uppreisnarástandinu við höfuðborgina, Bagdad. Breska ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar nú klukkan fimmtán mínútur yfir tólf á hádegi og talið er víst að þar muni Geoffry Hoon, varnarmálaráðherra Breta tilkynna að 650 breskir sérsveitarmenn verði sendir til Bagdad. Þar muni bresku hermennirnir taka að sér eftirlitsstörf svo þeir bandarísku geti frekar einbeitt sér að því að ráða að niðurlögum uppreisnarhópa, meðal annars í Falluja. Stór hluti þingmanna Verkamannaflokksins er andsnúinn frekari afskiptum af gangi mála í Írak og víst er að málið mun valda usla innan flokksins. Nokkrir þingmenn hafa látið eftir sér hafa, að með þessu sökkvi Bretar aðeins enn dýpra í Íraksfenið þegar þeir eigi helst að kalla sveitir sínar heim. Fjórir féllu í árás byssumanna á rútu sem flutti starfsmenn til alþjóðaflugvallarins í Bagdad í morgun. Algengt er að uppreisnar- og hryðjuverkamenn í Írak geri árásir á rútur sem flytja starfsmenn hersetuliðsins eða sem starfa hjá stofnunum sem lúta stjórn Bandaríkjamanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×