Erlent

Hóta að pynta óbreyttan borgara

Lögregluyfirvöld í Sádí-Arabíu og bandaríski herinn leita nú að Bandaríkjamanni sem grunað er að hafi verið rænt af samtökum hliðhollum al-kaída um helgina.  Samkvæmt bandaríska sendiráðinu í Riyadh, höfuðborg Sádí-Arabíu, hefur ekkert hefur spurst af Paul Johnson, sem er 49 ára verkfræðingur, síðan á sunnudag. Johnson starfar fyrir bandaríska fyrirtækið Lockhead-Martin og hefur unnið við viðgerðir á ratsjám í bandarískum herþyrlum. Hann átti að kom heim til Bandaríkjanna í júní en frestaði heimförinni fram á haust. Á heimasíðu islamskra öfgamanna hefur verið birt mynd af manni sem talið er víst að sé Johnson. Á síðunni er sagt að hann hafi gert við þyrlur sem notaðar séu til að drepa múslíma. Ennfremur er sagt að farið verði með hann líkt og fanga í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak sem hafa verið pyntaðir af Bandaríkjamönnum. Fjölskylda Johnsons frétt af málinu í gegnum fjölmiðla. Talsmaður hennar sagði að fjölskyldan hefði miklar áhyggjur enda vissi hún ekki hvort Johnson hefði verið pyntaður eða væri yfirleitt á lífi. Um sex milljónir af þeim 24 sem eru Sadí-Arabíu eru útlendingar og flestir þeirra vinna störf sem Sádí-Arabar vilja ekki vinna. Alls eru 35 þúsund Bandaríkjamenn í landinu sem starfa sem sérfræðingar í olíumálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×