Erlent

Einni og hálfri öld á eftir áætlun

Ríki heims eru svo fjarri markmiðum sínum um að draga úr fátækt í heiminum að það tekur sennilega eina og hálfa öld að ná þeim markmiðum sem menn höfðu sett sér að ná í Afríku fyrir árið 2015. Þetta eru orð Mark Malloch Brown, yfirmanns Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna. Á þúsaldarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir fjórum árum settu ríki heims sér það markmið að minnka fátækt um helming fyrir árslok 2015. "Næsta ár, 2005, er árið sem ræður úrslitum," sagði Brown. Hann sagði að á þeim tíma þyrfti að setja mikinn kraft í fjárfestingu og umbætur í Afríku. "Jafnvel þá er hæpið að markmiðin náist. Mat Þróunarstofnunarinnar, út frá því hvernig þetta hefur gengið, er að Afríka nái ekki markmiðum um að draga úr fátækt um helming fyrr en árið 2147." Brown segir að það þurfi ekki mikið til þess að fara megi nálægt því að ná markmiðunum 2015. Fyrir brot af því sem Íraksstríðið kostaði mætti draga verulega úr atvinnuleysi og tryggja fólki öruggt drykkjarvatn. Öruggt drykkjarvatn var annað markmið sem þær 189 þjóðir sem studdu ályktun þúsaldarráðstefnunnar samþykktu að stefna að. Önnur markmið þúsaldarráðstefnunnar voru að tryggja framboð á grunnskólamenntun öllum til handa, bæta líf þeirra sem búa í fátækrahverfum stórborga, draga úr útbreiðslu HIV-veirunnar og annarra sjúkdóma, draga úr bilinu á milli ríkra og fátækra ríkja og efla umhverfisvernd. Vandinn er ekki aðeins sá að ríki heims hafi ekki staðið sig sagði Brown. "Fjárfestingin sem er þörf á er meiri en sú sem almannavaldið eitt og sér ræður við," sagði Brown. Hann sagði að það sem vantaði væri sterk innkoma fjárfesta í fátækum ríkjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×