Erlent

Stækka byggðir á vesturbakkanum

Ísraelsk stjórnvöld eru að skoða möguleika á byggingu nokkur þúsund íbúða landtökumanna á Vesturbakkanum. Þar með virðast vera að rætast áhyggjur Palestínumanna sem sögðu að brotthvarf frá Gaza væri til þess eins að draga athyglina frá frekari uppbyggingu landnemabyggða og upptöku lands Palestínumanna á Vesturbakkanum. Ísraelska dagblaðið Maariv sagði frá því í gær að Shaul Mofaz varnarmálaráðherra hefði falið ísraelska hernum að gera áætlanir um byggingu þúsunda heimila í þremur landnemabyggðum sem eru þegar til staðar á Vesturbakkanum. Á mánudag sagði Mofaz fulltrúum landtökumanna að hann myndi taka afstöðu til beiðni þeirra um byggingu þúsund til tvö þúsund nýrra íbúða innan þriggja mánaða. Það er sá tími sem hann gefur hernum til að skila áætlun um frekari uppbyggingu landnemabyggða. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefur sagt að hann vilji efla byggðir landtökumanna á Vesturbakkanum í skiptum fyrir brotthvarf frá Gaza. George W. Bush Bandaríkjaforseti lýsti sig fylgjandi því fyrir nokkru. Landnemabyggðir á palestínsku landsvæði eru ólöglegar og hafa Sameinuðu þjóðirnar ítrekað ályktað gegn þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×