Erlent

Vantraust fellt þrisvar

Ísraelska ríkisstjórnin lifði af þrjár vantrauststillögur á þingi í gær, þar sem forysta Verkamannaflokksins - sem er í stjórnarandstöðu - ákvað að sitja hjá og veita stjórninni þar með öryggisnet. Tveir háttsettir félagar í Likudbandalagi Ariels Sharons forsætisráðherra sátu hjá við atkvæðagreiðslurnar. 37 þingmenn greiddu atkvæði gegn vantrausti en 32 með. Þrír af sex þingmönnum Trúarlega þjóðarflokksins, sem sæti á í stjórn, greiddu atkvæði með vantrausti á stjórnina. Þrír þingmenn greiddu hins vegar atkvæði gegn því. Trúarlegi þjóðarflokkurinn hefur barist af hörku gegn áformum Sharons um að hverfa á brott frá landnemabyggðum á Gazasvæðinu. Að sögn ísraelska dagblaðsins Haaretz var mjög heitt í kolunum þegar nokkrir fulltrúar landtökumanna funduðu með þingmönnum flokksins í gær. Landtökumennirnir öskruðu á þingmennina að hætta stuðningi við stjórn Sharons. "3.000 íbúar Gush Katif kusu þig, við höfum unnið fyrir þig og nú gerirðu okkur þetta," öskraði einn þeirra á þingmanninn Nissam Slomiansky.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×