Erlent

Endanlegur sigur vinnst ekki

Baráttan gegn hryðjuverkum gerir heiminn öruggari fyrir komandi kynslóðir en ræður vart niðurlögum hryðjuverkamanna sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti í viðtali við NBC sjónvarpsstöðina. "Ég held að við getum ekki unnið baráttuna," sagði Bush. Bush sagðist telja að hægt væri að búa til þau skilyrði þar sem hryðjuverkabarátta nyti minni stuðnings í ákveðnum heimshlutum. Bush hét því að halda baráttunni gegn hryðjuverkum áfram enda væri annað "stórslys fyrir börnin þín". "Þú getur ekki sýnt veikleika í heiminum sem við búum í í dag vegna þess að óvinurinn mun nýta sér þann veikleika," sagði Bush og bætti við. "Það mun efla sjálfstraust þeirra og gera heiminn að hættulegri stað." Í gær ferðaðist Bush til New Hampshire í áttunda skipti sem forseti. Fyrir fjórum árum vann hann ríkið með innan við eins prósents forskot á Al Gore, þáverandi forsetaefni demókrata. Skoðanakannanir nú gefa til kynna að bæði Bush og John Kerry, forsetaefni demókrata, geti unnið sigur í ríkinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×