Sport

Leeds vill ekki bíða til áramóta

Knattspyrnufélagið Leeds United sættir sig ekki við að Gylfi Einarsson þurfi að bíða til 1. janúar til þess að mega spila með félaginu í ensku 1. deildinni. Gylfi skrifaði undir samning við Leeds fyrr í þessum mánuði en samkvæmt reglum Alþjóða knattspyrnusambandsins geta leikmenn ekki skipt um félag frá ágúst og fram í janúar. Gylfi lék með Lilleström í norsku úrvalsdeildinni en keppni þar er nýlokið. Samningur Gylfa við félagið rennur út 30. nóvember. Knattspyrnustjóri Leeds, Kevin Blackwell, segir á heimasíðu Leeds að látið verði reyna á vinnulöggjöf Evrópusambandsins, Gylfi sé atvinnulaus frá og með 1. desember og eigi því líkt og aðrir fullan rétt á því að leita sér að vinnu líkt og aðrir launþegar í Evrópusambandinu. Lögfræðingar Leeds hafa bent á að norska knattspyrnumanninum Eric Nevland hafi verið heimilt að skipta úr Víkingi í Stavanger til hollenska liðsins Groningen fyrr í þessum mánuði. Sömu reglur eigi því að gilda um Gylfa segja forystumenn Leeds. Á heimasíðu enska liðsins fer knattspyrnustjórinn lofsamlegum orðum um íslenska landsliðsmanninn. Takist lögfræðingum Leeds ekki að fá leikheimild fyrir Gylfa þarf hann að bíða til áramóta. Gylfi, sem leikur á miðjunni, fær nú meiri samkeppni því Leeds gekk í morgun frá kaupum á öðrum miðjumanni, Shaun Derry frá Crystal Palace. Hann er 26 ára líkt og Gylfi og er þrettándi leikmaðurinn sem Kevin Blackwell knattspyrnustjóri kaupir frá því að hann tók við starfi knattpyrnustjóra í vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×