Sport

Einvígi eins og þau gerast best

"Öll pressan er á liði Barcelona fyrir þennan leik sérstaklega þar sem félagið hefur ekki unnið titil um árabil," lét framherji Real Madrid, Ronaldo, hafa eftir sér fyrir stórleik liðanna í kvöld. Um er að ræða stærsta íþróttaviðburð í landinu og þúsundir aðdáenda víða um heim sitja sem fastast meðan leikurinn stendur yfir. Hann segir fjölmiðla fara offari í umfjöllun sinni og að innan raða Real séu allir þokkalega rólegir þó að leiktíðin hafi byrjað dapurlega. "Við erum sallarólegir og engu skiptir hvort við töpum, gerum jafntefli eða vinnum þennan ákveðna leik. Úrslit hans munu ekki ráða því hvaða lið stendur uppi með titil að loknu mótinu í sumar. Aðspurður um erfiðustu mótherjana í liði Barca sagði Ronaldo að allir í liðinu væru toppleikmenn. "Ég hef alltaf gaman af að eiga við Xavi enda fádæma erfiður við að eiga. Ronaldinho þarf heldur engin orð að hafa um. Hann er baneitraður hvenær sem hann kemur nálægt boltanum." Þrátt fyrir ummæli Ronaldos er ljóst að leikurinn skiptir talsverðu máli. Fyrir utan að vera hið klassíska einvígi þar sem milljónir aðdáenda um víðan völl fylgjast með mun Barcelona skapa sér öfundsverða stöðu sigri liðið Real. Þá hefur félagið sjö stiga forskot á fjendur sína og þrátt fyrir að sá munur sé ekki mikill þegar meginhluti mótsins er enn eftir er erfitt að sjá mörg önnur lið á landinu rífa mörg stig af þeim meðan þeir leika eins og þeir hafa gert frá upphafi mótsins. Barcelona hefur hingað til skorað tvo til þrjú mörk að meðaltali í leik og aðeins fengið á sig sjö mörk. Real Madrid, á hinn bóginn, er enn afar brothætt þrátt fyrir að hafa náð sér upp úr þeirri lægð sem einkenndi leik liðsins til að byrja með. Margir eru ekki sannfærðir um að liðið sé komið á beinu brautina þrátt fyrir stórsigur á Albacete í síðustu umferð en sigur í kvöld mun að minnsta kosti tryggja hátt spennustig á toppi spænsku deildarinnar næstu vikurnar. albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×