Sport

Shevchenko á stórmót

Serbía-Montenegro vann góðan sigur 0-2 á Belgum í Brussel, sigurinn kom þeim á toppinn í riðlinum og rændi Belga nánast öllum möguleikum um að komast áfram. Seinna markið skoraði Mateja Kezman sem hafði komið inn á sem varamaður fyrir fyrirliðann Savo Milosevic sem meiddist í fyrri hálfleik. Þetta var fyrsta landsliðsmark Kezman í 28 mánuði sem brast í grát þegar hann fagnaði markinu sem kom eftir laglegt einstaklingsframtak. Önnur þjóð í góðum málum er Úkraína sem vann 0-3 sigur í Tyrklandi sem þykir ekki auðveldasti útivöllurinn. Andriy Shevchenko skoraði tvö markanna en þrátt fyrir að þetta hafi verið fyrsta tap Tyrkja í þessari undankeppni þá hafa þeir aðeins unnið einn af fimm leikjum. Úkraína er komið með fimm stiga forskot á toppnum og það lítur út fyrir að Shevchenko fái loksins tækifæri til þess að sýna snilli sína á stórmóti. Evrópumeistarar Grikkja, sem eru í sama riðli og Úkraína, unnu sinn fyrsta sigur í undankeppninni þegar þeir lögðu Kazakstana 3-1 og hetja þeirra frá því í EM í Portúgal Angelos Charisteas skoraði tvö mörk en hann skoraði einmitt sigurmarkið í úrslitaleiknum í sumar. Grikkir höfðu leikið fyrstu þrjá leiki sína í riðlinum án þess að vinna. Danir náðu hisnvegar aðeins jafntefli í Georgíu, hinn dansk-íslenski Jon Dahl Tomasson skoraði bæði mörkin og fyrir vikið eru fimm af sjö liðum riðilsins með 5 og 6 stig, á eftir Úrkaínu (11 stig) og undan stigalausu liði Kazakstana. Portúgalir unnu 5-0 sigur á Lúxemborg og hafa nú fengið 13 stig og skorað 20 mörk í fimm leikjum sínum í undankeppninni. Pedro Pauleta skoraði tvö markanna en þeir Luis Boa Morte, Cristiano Ronaldo og Nuno Maniche voru líka á skotskónum hjá portúgalska liðinu sem hefur skorað 12 mörk í síðustu tveimur leikjum. Pauleta vantar nú aðeins fimm mörk til að jafna markamet Eusebio fyrir portúgalska landsliðið. Ungverjar sóttu þrjú stig til Möltu í eina leik okkar riðils og eru því komnir fimm stigum á undan Íslandi í stigatöflunni en Malta og Ísland eru jöfn á botninum með eitt stig hvort úr fjórum leikjum. Rúmenar misstu toppsætið til Hollendinga með því að gera aðeins jafntefli við botnlið Armena en á sama tíma unnu Hollendingar 0-3 útisigur á Andorra auk þess sem Tékkar unnu Makedóna 0-2 með tveimur mörkum á síðustu tveimur mínútum leiksins. Hollendingar og Tékkar eru og verða sigurstranglegastir í þessum sterka riðli og Rúmenar mega ekki við því að missa stig gegn "veikari" þjóðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×