Innlent

Gosmökkurinn nær hátt til himins

Fyrstu merki um gosmökk frá eldgosinu í Grímsvötnum sáust á veðurradar Veðurstofunnar klukkan 23:10 í gærkvöld og náði mökkurinn þá upp í um 8 kílómetra hæð. Klukkan rúmlega 1 í nótt náði mökkurinn upp í um 13 kílómetra hæð, en hefur verið nokkuð breytilegur síðan þá. Gosmökkurinn sýnist á radarmyndinni vera frekar sunnarlega miðað við Grímsvötn, en að öllum líkindum er það vegna ónákvæmni í mælingunum, en radarinn er í um 260 km fjarlægð frá gosinu. Vörubílsstjóri við Kárahnjúka hafði samband við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra eftir miðnætti og tilkynnti að hann sæi gosmökkinn. Mökkurinn féll nokkuð inn í skýin, en lýstist reglulega upp af eldglæringum. Í framhaldi af vaxandi jarðskjálftum undanfarna daga og sérstaklega í gær, hófst samfelld hrina jarðskjálfta og óróa upp úr klukkan 20 í gærkvöld. Töldu menn líklegt að þar með hefði eldgos hafist í Grímsvötnum. Veðurstofan fylgdist grannt með framvindunni og Samhæfingarstöð almannavarna var opnuð í gærkvöld vegna gossins. Þá voru Flugmálastjórn, Vegagerðin, lögreglustjórinn í Vík og lögreglustjórinn á Höfn í Hornafirði sett í viðbragðsstöðu. Samkvæmt ráðleggingum jarðvísindamanna og almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, var veginum um Skeiðarársand lokað um miðnætti. Veginum var lokað af öryggisástæðum. Lokanirnar eru við Núpsstað að vestan og við afleggjarann að Skaftafelli að austan. Margt bendir til að eldgosið núna sé norðan við gosstöðvarnar frá 1998, en enn hefur ekkert verið staðfest í þeim efnum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×