Erlent

Afganistan er stríðssvæði

Yfirmaður upplýsingasviðs alþjóða rauða krossins segir samtökin líta á Kabúl og Afhanistan sem stríðssvæði og að íbúar þar geri engan greinarmun á friðargæsluliðum og hermönnum. Yves Daccord, yfirmaður upplýsingasviðs alþjóða rauða krossins, segir Afganistan allt stríðssvæði. Þar sé hættulegt að vera og starfsmenn rauða krossins fari mjög varlega. Hann segir að menn verði að skipuleggja ferðir sínar vandlega. Varðandi Íslendingana í Kabúl segist Daccord ekki þekkja málavexti nægilega vel til þess að tjá sig. Kabúl sé hins vegar hættulegur staður, sem sé stríðssvæði og þar hegði menn sér öðruvísi en þar sem friður ríki. Daccord segir fólk almennt ekki gera greinarmun á hermönnum og friðargæsluliðum í Kabúl og sérstaklega ekki ef menn klæðist einkennisbúningi. Vestrænt fólk sé yfirleitt talið vera hermenn. Atvikið í Kabúl fyrir viku kom íslensku þjóðinni á óvart. Gagnrýnendur benda á að íslendingar séu komnir út á hálan ís og óþægilega nálægt hermennsku án þess að nauðsynleg þjálfun fylgi. Það er ef til vill til marks um sakleysi íslendinga í þessum efnum að atburður sem kostaði þrjá lífið er hafður í flimtingum á íslandi. Ellefu ára stúlkubarn, tuttugu og þriggja ára bandarísk kona og árásarmaðurinn létust. Engu að síður er hent gaman að atvikinu í spaugstofunni og víst er að bolir friðargæsluliðana, „shit happens", hafa stuðað fólk sem þykja þeir bera vott um virðingarleysi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×