Erlent

Þeir heppnu komast á stofnanir

Á árunum 1995-98 starfaði Sigrún Þórarinsdóttir, þroskaþjálfi, í Úganda og hún hefur séð aðbúnað þeirra sem stríða við fötlun, bæði andlega og líkamlega. Stofnanir sem sinna fötluðu fólki eru fáar í landinu og eins og við er að búast eru aðstæður þar bágbornar. "Mest er verið að hugsa um að gefa krökkunum að borða," segir Sigrún og bætir því við að margar stofnanirnar séu einungis geymslustaðir fyrir fatlaða. Hún segir þó að það hafi komið sér á óvart hversu margt menn gátu gert við lítil efni, oft með furðu góðum árangri. Í raun má segja að þeir sem komast á stofnanrir séu heppnir. Sigrún segir að neikvæð viðhorf til fatlaðra hafi verið áberandi og margir þeirra taldir andsetnir. "Stærstur hluti götubarnanna í höfuðborginni Kampala var fatlaður og þau urðu að betla sér til matar," segir hún en telur að hagur þeirra hafi verið betri á landsbyggðinni. Það vakti athygli hennar hversu sjaldan hún sá þroskaheft fólki. "Ég sá aðeins í eitt skipti barn með Downs heilkenni úti á götu." Aðspurð hver skýringin á því sé svarar Sigrún: "Þau hafa hreinlega verið borin út rétt eftir fæðingu. Ég er viss um það." Himinn og haf skilja að aðbúnað fatlaðra í Úganda og á Íslandi. "Það er ekki hægt að bera þessi tvö lönd saman," segir Sigrún Þórarinsdóttir, þroskaþjálfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×