Erlent

Bandaríkjamenn firra sig ábyrgð

Bandaríska varnarmálaráðuneytið heldur því fram að tæplega 400 tonnum af sprengiefni, sem forsetaframbjóðandinn John Kerry segir hafa horfið úr Írak fyrir framan nefið á Bandaríkjaher, gæti hafa verið fjarlægt áður en ráðist var inn í Írak. Yfirmaður í varnarmálaráðuneytinu sagði að það væri afar ólíklegt að jafnmikið magn og þetta hefði verið flutt í burtu úr landinu eftir að Bandaríkjaher var þangað kominn. Talsmaður varnarmálaráðuneytisins sagði að flutningur á 377 tonnum af sprengiefni krefðist fjölda flutningabíla og vinnuvéla sem hefðu þurft að keyra eftir sömu vegum og farartæki Bandaríkjahers. Yfirvöld í Írak skýrðu Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni frá því fyrir hálfum mánuði að sprengiefni hefði verið stolið vegna skorts á eftirliti. Í bréfi frá vísinda- og tæknimálaráðuneyti Íraks kemur fram að birgðageymslan sem sprengiefnið hvarf úr hafi síðast verið skoðuð fimm dögum áður en innrás Bandaríkjahers hófst, 20. mars 2003. Þá hafi sprengiefnið verið í geymslunni, og því hljóti það að hafa horfið eftir hernám Bandaríkjamanna. Hópur vígamanna sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem þeir segjast hafa sprengiefnið undir höndum. Yfirlýsingin hefur ekki fengist staðfest.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×