Erlent

Danskur þingmaður í gæsluvarðhald

Danski þingmaðurinn, Flemming Oppfeldt, hefur verið úrskurðaður í þrettán daga gæsluvarðhald vegna gruns um að kynferðislega misnotkun á 13 ára dreng. Hann er einnig grunaður um að hafa margoft reynt að tæla unga drengi gegn greiðslu og jafnframt að hafa gert tilraunir til þess að kaupa karlmenn til vændis á Netinu. Krafist var gæsluvarðhalds til að ganga úr skugga að Oppfeldt gæti ekki eyðilagt lögreglurannsóknina. Í dönskum fjölmiðlum kemur fram að Oppfelt hafi játað fyrir rannsóknarlögreglu á þriðjudag að hafa haft samneyti við þrettán ára drenginn, en að hann hafi ekki talið að hann væri að gera nokkuð saknæmt. Hann segist hafa haldið að drengurinn hafi verið fimmtán ára. Í gær lýstu lögmenn Oppfeldts því yfir að hann neiti sök við ákærunum gegn honum. "Umbjóðandi minn er ekki barnaníðingur. Hann neitar sök," sagði lögmaður Oppfeldts. Lögreglan telur að Oppfeldt hafi komist í samband við unga drengi í gegn um spjallrásir á Netinu. Unglingsdrengurinn, sem sakar Oppfeldt um verknaðinn, segir að Oppfeldt hafi tælt sig inn í íbúð hans, þar sem hann hafi haft við hann mök. Oppfeldt var handtekinn á þriðjudag í kjölfar þess að danska þingið aflétti þinghelgi af honum. Þegar fjallað var um gæsluvarðhaldskröfuna fyrir dómi í gær kom í ljós að málið er talsvert umfangsmeira en talið var í fyrstu. Oppfeldt sagði sig úr vinstri flokknum á þriðjudag eftir að ásakanirnar komu fram. Hann hefur þó ekki látið eftir sæti sitt á þinginu. Hann gæti átt von á átta ára fangelsisdómi ef hann verður dæmdur sekur fyrir kynferðislega misnotkun á ungmenni. Danska lögreglan rannsakar nú fjögur heimilisföng sem tengjast þingmanninum. Einnig hefur lögreglan lagt hald á tölvur og tölvupóst í tengslum við málið.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×