Erlent

Myndir frá Madrídar-árásinni

Árásirnar í Madríd á Spáni eru dæmi um ógnina sem stafar af íslömskum öfgamönnum í Evrópu. Í dag voru birtar myndir úr öryggismyndavélum sem sýna eina sprengjuna springa. Hópur íslamskra hryðjuverkamanna var einnig handsamaður.  Spánverjar voru minntir með óþægilegum hætti á hryðjuverkaárásirnar í mars síðastliðnum sem og hættuna á frekari hryðjuverkum í dag. Átta meintir íslamskir öfgamenn voru handteknir í gær og í dag sakaðir um að skipuleggja hryðjuverkaárás á Hæstarétt Spánar. Hæstiréttur er einmitt miðstöð rannsóknardómarans Baltasars Garzon en það voru rannsóknir á hans vegum sem leiddu til þess að mennirnir voru handteknir. Þeir munu ekki hafa verið komnir langt á veg með skipulagningu árásarinnar og höfðu til að mynda ekki orðið sér út um sprengiefni eða annað í þeim dúr. Dagblaðið El Mundo greindi þó frá því að mennirnir hefðu ætlað sér að aka vöruflutningabíl með hálfu tonni af sprengiefni um borð upp að Hæstarétti og sprengja farminn þar í loft upp. Spænska sjónvarpsstöðin Telecinco sýndi í dag myndir úr öryggismyndavél á Atocha-brautarstöðinni í Madríd sem einnig eru til þess fallnar að ýfa upp gömul sár. Þar má sjá hvernig sprengja, sem hryðjuverkamenn höfðu komið fyrir, sprakk í mannfjöldanum. Reykur legst yfir svæðið og sjá má hvernig höggbylgja sviptir fótunum undan fólki á brautarpallinum. Hundrað níutíu og einn týndi lífi í hryðjuverkaárásinum þann 11. mars síðastliðinn en íslamskir öfgamenn, sem sagðir voru tengjast al-Kaída, stóðu fyrir árásunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×