Erlent

Stjórnarskrá breytt í kosningum

Umdeildur forseti Hvíta-Rússlands verður að líkindum um hríð í embætti því stjórnarskrá landsins var breytt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftirlitsmenn gera athugasemdir við framkvæmdina, en hann blæs á gagnrýni. Hvítrússar virðast hæstánægðir með Alexander Lukashenko, forseta landsins, því nærri áttatíu prósent þeirra féllust á tillögum um breytingu á stjórnarskránni sem gerir honum kleift að sækjast eftir embættinu, þriðja kjörtímabilið í röð, árið 2006. Þó að Lukashenko virðist farsæll leiðtogi heima fyrir er hann mjög umdeildur erlendis, þykir sýna einræðistilburði og bera litla virðingu fyrir grundvallaratriðum lýðræðis. Hann vísar þó allri gagnrýni á bug og bendir á niðurstöðu kosninganna máli sínu til stuðnings. Fulltrúar ÖSE, Samtaka um öryggi og samvinnu í Evrópu, fylgdust með kosningunum og voru á því að ekki væri allt með felldu. Þau segja kosningarnar langt frá því að uppfylla kröfur samtakanna. Hvítrússnesk stjórnvöld hafi ekki tryggt grundvallarskilyrði sem nauðsynleg séu til að vilji þjóðarinnar sé undirstaða valds ríkisstjórnarinnar. Audrey Glover, eftirlitsmaður ÖSE, sagði samtökin hafa haft áhyggjur af áhlaupum lögreglu á kosningaskrifstofur, að frambjóðendur, starfsmenn framboða og innlendir eftilitsmenn hefðu verið handteknir, auk fjölmargra frásagna af þvingunaraðgerðum gagnvart ýmsum hópum, sérstaklega stúdentum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×