Erlent

Samsæriskenningar í algleymingi

Forsetaframbjóðandi sem hefur með sér bönnuð gögn í kappræðum og forseti sem fær svör sín við spurningum í sömu kappræðum frá aðstoðarmönnum sínum sem segja honum til í gegnum falinn hljóðnema. Þetta er meðal þess sem gengið hefur um netheima að undanförnu. Fljótlega eftir að fyrstu kappræður George W. Bush og John Kerry áttu sér stað fór myndbútur úr þeim sem eldur um sinu þar sem virtist upplýst að Kerry hefði svindlað í kappræðunum. Kerry sást fara í vasa sinn og virtist sækja eitthvað. Það er stranglega bannað samkvæmt reglum sem fulltrúar frambjóðendanna komu sér saman um fyrirfram. Ekki sást þó hvort Kerry tæki eitthvað úr vasanum. Nú telja sumir svo að Bush hafi haft hljóðnema á sér og fengið góð ráð frá starfsmönnum kosningabaráttu sinnar um hverju hann ætti að svara. Vísa menn þar til bungu aftan á jakka forsetans þar sem þeir telja að búnaðurinn hafi verið falinn. Væntanlega þarf vart að taka fram að stuðningsmenn Bush hlæja að þessu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×