Innlent

Segir fjölmiðla misnota vald sitt

Sveinbjörn Kristjánsson, fyrrverandi aðalgjaldkeri Símans, telur fjölmiðla hafa haft áhrif á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í Landssímamálinu. Í lesendabréfi sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag segist hann sáttur við dóminn sem hann fékk. Hins vegar hafi aðrir hlotið harða dóma án þess að sekt þeirra væri sönnuð. Sveinbjörn telur dómstóla hafa látið undan þrýstingi fjölmiðla sem hafi misnotað vald sitt í umfjöllun um málið. Almenningsálitið hafi snúist gegn saklausu fólki og vondur dómur verið felldur. Grein Sveinbjörns Kristjánssonar í heild sinni: Í nýföllnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var ég dæmdur í 4 og ½ árs fangelsi. Telst það nokkuð hart og hefur verið fjallað um að þetta sé harðasti dómur í viðlíka máli sem upp hefur verið kveðinn. Samt er ég sáttur við þennan hluta og mun auðvitað hlíta honum. Það sem verra er, er sá aukni dómur sem ég og fjölskylda mín hlýtur í þessu máli. Þar sem ég taldi fyrir þennan dóm að Ísland væri með eðlilegt réttarfar og stæði öðrum vestrænum þjóðfélögum ekki að baki varð niðurstaða Héraðsdóms mér mikið áfall. Þeir dómar sem meðákærðu hlutu í þessu máli verða að teljast hrikalegir. Til að þeir sem lesa þetta skilji hvað málið snýst um, þá er verið að dæma bróður minn, frænda minn og samstarfsmann bróður míns í mjög harða refsingu saklausa, án þess að nokkur gögn komi fram í málinu til að styðja dómana! Ekki voru lögð fram nein gögn í málinu sem tengja þá við refsivert athæfi og ekki voru kölluð fyrir nein vitni sem vitnuðu um refsivert athæfi. Þvert á það kom fram framburður um að þeir vissu ekki betur en að allt væri í lagi og fengu allavega ekki aðra vitneskju frá mér. Einnig voru lögð fram gögn sem sýndu að ég hefði leynt þá, og viljandi afvegaleitt þá, um annars vegar uppruna fjárins í sumum tilfellum og hins vegar um að refsivert athæfi hefði átt sér stað af minni hálfu í öðrum tilfellum.Hvernig má þetta vera í ríki sem kennir sig við lýðræði og stærir sig af því að standa framarlega í réttindum þegna sinna? Hvernig má vera að án gagna séu menn dæmdir sekir? Einu sinni var maður dæmdur fyrir morð á Íslandi án þess að lík fyndust. Um það hefur verið rætt alla tíð síðan og finnst flestum að réttarmorð hafi verið framið.Það sem ég tel að standi að baki þessu er hið hrikalega misnotaða vald fjórða valdsins, fjölmiðlanna. Sumir fjölmiðlamenn, sem ekki kannast við þetta vald, hafa misnotað það hingað til og munu gera það áfram. Það að setja hálfsannleika fram í blaðaskrifum er verra en hreinasta lygi. Lygi er þó hægt að benda á en hálfsannleika er mjög erfitt að greina. Dómur Héraðsdóms ber þess merki að þar hafi verið látið undan þrýstingi aðila sem hafa fjallað af jafn óvilhöllum hætti um málið eins og að segja að "(sakborningur) hafi lýst yfir sakleysi og ætli (þess vegna) að láta Saksóknara hafa fyrir því að sanna sekt".Svona málflutningur hefur verið til þess fallinn að fá almenningsálitið upp á móti saklausum aðilum og orðið til þess að vondur dómur er fallinn. Ekki býst ég þó við því að menn sjái að sér eða telji nokkuð rangt við þetta, því miður. Ekki bjóst ég við að dómarar létu undan þrýstingi sem þesssum. Og verð ég því að gera þeim grein fyrir því sem þessi dómur þýðir fyrir mig.Fyrir mig er þetta lífstíðardómur. Það að saklausir menn séu dæmdir, ungir, til mjög harðra refsinga út af gjörðum mínum er óbærilegt. Ef þið teljið þennan dóm minn réttlætanlegan verð ég að velta fyrir mér hvers vegna þið kusuð ekki frekar að dæma mig til fullrar refsingar, innan ramma laganna? Ég veit ég skaðaði marga með gjörðum mínum, en þýðir það að líf mitt þurfi að vera með þeim hætti í framtíðinni að ég muni aldrei geta horft framan í foreldra mína, systkyni og annað venslafólk? Það er kannski skrýtið að sjá dæmdan mann tjá sig um mál með þessum hætti, en ég gat því miður ekki orða bundist. Að lokum vil ég þakka starfsfólki Héraðsdóms fyrir mannlega og góða framkomu á meðan á þessu máli stóð í réttarsal. Einnig vil ég þakka þeim sem að rannsókn málsins komu. Ekki er ég viss um að ég gæti komið jafn vel fram undir sömu kringumstæðum. Þetta er einstaklega vandað fólk.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×